englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Nesti

Ég hef aðeins verið að ræða við aðra foreldra sem eru að senda börn sín í fyrsta skipti í skóla þessa dagana. Flestir virðast eiga í jafn miklum vandræðum og ég með nestið.

Hvað er eiginlega nóg nesti?

Mötuneytið í skólanum hans Sverris var ekki tilbúið fyrr en í þessari viku, þannig að ég hef verið að útbúa "tvo mata" og svo er síðdegishressing í boði í eftirskólagæslunni.
Ég held að það sé í eðli foreldra að hafa áhyggjur af því hvort ungar þeirra nærist ekki nóg, eða of mikið eða ekki rétt... og ég er engin undantekning.
Þegar sonurinn hefur komið heim með helminginn af nestinu sínu hef ég fengið smá sting í hjartað..er nestið ekki nógu djúsi? Er hann að missa matarlystina? Ætti ég að setja sykur á smjörið??? Sultu og hnetusmjör???

Konan í gæslunni kom til mín í gær og spurði mig hvort Sverrir ætti ekki að vera í síðdegishressingunni hjá þeim? Jú, ég hélt það nú.
Þá segist hún ekki hafa verið alveg viss, þar sem hann væri alltaf með svo mikið nesti.

Ég tók þetta til mín og hugsaði með mér að ég ætti kannski aðeins að róa mig í smurningunni. En ég sannfærðist ekki fyrr en sonurinn sagði mér draum næturinnar:

"Mamma, veistu hvað mig dreymdi í nótt?"
"Nei, hvað?"
"Mig dreymdi að ég ætti endalaust mikið af nestisboxum. Herbergið mitt var alveg fullt af þeim... og amma Magga gaf mér þau öll"

Héðan í frá er mottóið: ef það kemst ekki í nestisboxið - fer það ekki með.