englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Naflastrengur klipptur

Jæja þá er hann upprunninn. Fyrsti skóladagur Sverris Páls.
Mér sýnist á öllu að frumburðurinn hafi fengið það jafnaðargeð, sem móðirin þykist alltaf hafa - en hefur svo kannski ekki mikið af.
Ég vaknaði þrisvar í nótt, af því að ég var svo hrædd um að ég myndi sofa yfir mig. En hins vegar var skólastrákurinn lengi, lengi að koma sér framúr í morgun.
Á endanum dró ég hann framúr og með þeim orðum að nú þyrftum við að fara að smyrja nesti.

Sem ég og gerði...
Ef einhverjir í bekknum koma nestis lausir, þá getur Sverrir gefið þeim af nestinu sínu. Það ætti að duga fyrir amk helmingin af bekknum.

Þegar búið var að bursta tennur, skrúbba skítinn og greiða hárið, var skólatöskunni skellt á bakið og myndatakan hófst. Stolt náði ég að klára filmuna, með þeim afleiðingum að við vorum næstum því orðin of sein í skólann.
Til allrar hamingju er skólinn rétt hjá okkur og við náðum að ganga saman, þurftum ekki að hlaupa en slepptum því þó að skoða hvert einasta sandkorn sem á vegi okkar varð.

Þetta var ósköp yndæl stund. Að ganga svona saman í hlýrri rigningunni, hönd í hönd. Ekki laust við að ég fyndi svolítið til mín. Ég átti þennan flotta strák. Þennan strák sem í dag var að stíga sín fyrstu skref í átt til framtíðar, fullorðinsára og starfsframa. Ekki seinna vænna að fara að byrja í skólanum ef hann ætlar einhverntímann að ná að verða góður fisksali eða leynilögga.

Jæja, þarna var skólinn. Við fundum hlið sem beið opið eftir okkur. Um leið og við göngum í gegnum hliðið segir litla barnið mitt "þú mátt alveg sleppa núna!!!"

Skrefið er stigið og líklegast ekki aftur snúið. Héðan í frá má ég, á almanna færi, bara horfa á úr fjarlægð...
Í stað kossanna og faðmlagsins sem ég er vön að fá á kveðjustundum, fékk ég eitt vandræðalegt vink (ætlar þessi manneskja ekki að fara að koma sér í burtu?).
Minnug atriðsins í "About a boy" þegar mamman verður syninum til skammar með því að kalla yfir skólalóðina að hún elski hann voða mikið, brosti ég og vinkaði þegjandi til baka og gekk heim á leið.

Á hvað ætli ég geti leigt herbergið hans?