englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Small talk

Ég er alltaf að rekast á fólk úr fortíðinni. Fólk sem var einu sinni í mínum nánasta hring en er í dag í öðrum hringjum - jafnvel í öðrum víddum. Auðvitað er finnst mér misjafnlega gaman að hitta þetta fólk. Það fer eftir hvort þetta fólk er skemmtilegt og hvernig ég er upplögð. Yfirleitt er ég ekkert sérstaklega vel upplögð.
Ekki það að ég sé mannafæla. Ég er bara svo léleg í "small talkinu"
Af hverju erum við alltaf að spyrja um hluti sem okkur langar ekkert endilega til að vita svörin við? Af hverju spyrjum við um lokinn einingafjölda í háskóla, þegar okkur langar miklu frekar að vita hvað manneskjan er að lesa? eða hugsa??

Lenti í einu svona samtali í gær:
(ath eftirfarandi samtal er mjög einhliða. Það er gert vísvitandi svo undirrituð komi betur út.)

Fortíðar fólk: Nei hæ!
Jóda: Hæ
FF: Langt síðan ég hef séð þig, hvað segir þú gott?
Jóda: Bara allt fínt....en þú?
FF: Bla bla bla..ertu að fara í sumarpróf? (þetta samtal átti sér stað á bókhlöðunni)
Jóda: Já....en þú?
FF: Bla bla bla...Í hverju ertu aftur?
Jóda: Mannauðsstjórnun..en þú?
FF: Bla bla bla...hvað er strákurinn þinn aftur orðinn gamall?
Jóda: sex ára
FF: guð hvað tíminn líður hratt!!!

smá þögn..
og ég byrja að telja 1-2-3-4-5..
nú fer alveg að koma að henni...
6-7-8-9-10...

FF: Ertu kominn með kall? (bingó)
Jóda: Nei
FF: Bara þið tvö? Er það ekki huggulegt?
Jóda: Jú, bara við tvö voða yndislegt.

Smá þögn..

FF: Það kemur að því, vittu til. Ég hef tröllatrú á þér!!!

Stundum þá líður mér eins og æxli á samfélaginu. Ég er ekki í sambandi.
Ég er farin að hallast að því að fólki sem er í sambandi finnist óþæginlegt að umgangast mikið fólk sem ekki er í sambandi. Það er ekki lengur hægt að tala við það um alla hluti, ekki hægt að gera allt með þeim, o.s.frv.
Ég hef t.d. ekki tölu á því hvað ég hef ekki verið boðin í mörg matarboð, af því að það er svona "maka dæmi" - þrátt fyrir að það séu kannski mínir elstu og bestu vinir sem standi fyrir þessum matarboðum. Hins vegar er nóg fyrir mig að vera að slá mér upp til að verða gjaldgeng í þessi matarboð.
Það er stundum eins og það sé búið að gefa út skotleyfi á fólk sem ekki er í sambandi. Þá er ég ekki að tala um svona veiðileyfi, heldur hreinlega skotleyfi. Útrýmum einstæðingum - komum þeim í samband!

Kunningjakona mín var orðin alveg svakalega þreytt á spurningunni um hvort hún væri nú ekki að fara að fá sér kærasta, hvort hún væri nú ekki komin á fast o.s.frv.
Til að losna við þessar spurningar byrjaði hún með Jóni. Jón var sjómaður, sem eins og gefur að skilja var mikið fjarverandi. Langir túrar, oft farnir nokkrir túrar í röð. Þegar hann var í landi, rétt missti maður alltaf af honum. Eða þá að hann var rétt ókominn. Þennan Jón átti kunningjakona mín í ein tvö ár, eða þangað til hún hitti manninn sem hún er með í dag.
Jón gufaði upp, rétt eins og hann hefði aldrei verið til.

Það er spurning hvort ég fari ekki og leiti hann uppi - svona til að hafa frá einhverju skemmtilegu að segja næst þegar ég fer í "small talkið"?
Hver veit nema mér verði boðið í mat..því ég hlýt að vera svo einmanna þegar Jón er svona mikið fjarverandi!