Búið spil
Jæja, þá er skvísubílasumrinu formlega lokið. Ég ók upp á höfða, þar sem bíllinn "minn" á heima. Það var með vissum trega sem ég fór síðasta rúntinn. Græjurnar á fullu blasti, sólgleraugun á sínum stað og upp Ártúnsbrekkuna á 90. Ég var að hugsa um að fara úr að ofan, en hætti við.
Það myndast alveg sérstök orka í maganum, þegar ég heyri skemmtileg lög. Hver smellurinn kom á fætur öðurm. Lokalagið toppaði þó allt. Ruslana vinkona mín (man náttúrulega ekki hvað lagið hennar heitir). Við bonduðum svo svakalega að ég fékk tár í augun.
Kannski voru þessi tár líka pínulítið fyrir þennan litla fjólubláa. Þó svo að ég kallaði hann dollu og gerði grín að honum, þá unnum við vel saman. Kannski líka pínulítið fyrir sumrinu sem er að ljúka. En það koma aðrir bílar og önnur sumur.
Strákarnir á bílaleigunni tóku mér fagnandi, enda sjálfsagt sjálfir aðframkomnir af söknuði. Og ég snéri heim á leið.
Nú tala ég eins og ég sé búin að yfirgefa Volvoinn minn. Auðvitað er ég ekki búin að því. Við eigum okkar sögu. Maður yfirgefur ekki ástvin sinn, bara af því að hann er orðinn gamall.
Þetta er náttúrulega svakalegur kaggi, liggur vel á götunni, eðal númer og ég veit ekki hvað og hvað...
En afhverju þarf hann að hafa svona hátt?
Af hverju getur hann ekki farið aðeins hraðar? Ekki mikið - bara pínulítið.
Ætla að skola af honum rykið í vikunni og fara með hann í skoðun (ekki nema 4 mánuðum of seint).
Ætli ég fái skoðun fjórða árið í röð, með ónýtt rúðupiss?
Það verður spennandi að sjá.
<< Home