englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

föstudagur, ágúst 20, 2004

Orðaleikir

Mér finnst gaman að segja eitt en meina eitthvað annað. Mér finnst gaman að vera óljós í máli. Gaman þegar ég sé og heyri á fólki að það er ekki alveg með á hreinu hvort ég er að koma eða fara eða ætli jafnvel bara að vera kyrr.

Mér finnst líka gaman að persónugera dauða hluti.

Það er dagamunur á henni
Ég er búin að vita af henni í dágóðan tíma. Fyrst þegar leiðir okkar lágu saman þá ætlaði ég mér ekki stóra hluti með henni en smám saman þá vaknaði upp örlítill áhugi. "Hún er nú ekki svo vitlaus þessi" hugsaði ég.
Ég segi nú ekki að mig langi til að sökkva mér í hana. Vera með hana hjá mér í rúminu á kvöldin. Vakna með henni á morgnanna.
Nei, hún kveikir ekkert sérstaklega í mér, en á sinn einstaka hátt fullnægir hún ákveðnum þörfum hjá mér. Það er gott að hafa hana í lífinu sínu.
Ég skil hana samt ekki alveg. Það er ekki gott að skilja ekki einhvern sem er stór partur af lífinu þínu.
Eftir stutta umhugsun ákvað ég að eyða tíma með henni, gefa henni alla mína athygli, í þeirri von að hún myndi opna sig fyrir mér.
Þessi samskipti okkar hafa gengið ágætlega. En þó er dagamunur á henni. Hún er yfirleitt opin og móttækileg fyrst á morgnanna. Lætur sér vel líka þegar ég handfjatla hana og reyni að kynnast henni eins náið og hægt er.
Upp úr hádegi virðist hún vera búin að fá nóg af mér. Gefur ekkert færi á sér. Lokar á mig.
Ég er sjálf oft orðin þreytt á þessum tíma, þannig að við leggjum okkur stundum saman. Það er ósköp notalegt. Hún vill frekar að ég liggi ofan á henni en við hlið hennar. Ég læt það eftir henni þó hún sé full stinn fyrir minn smekk. Það er líka eins og við tengjumst sérstökum böndum þegar við liggjum svona þétt saman. Hitinn frá líkama mínum vermir hana. Hún mýkist upp og verður aftur mótækileg fyrir mér.

Mörgum finnst hún mjög óspennandi, en ég veit hún hefur upp á svo margt að bjóða. Ég ætla að gefa henni tíma. Gefa mér tíma með henni.
Góðir hlutir gerast hægt. Hver veit nema að eitthvað kvöldið fái hún að koma með mér í rúmið og ég vakni glöð við hlið hennar?
Elsku tölfræði bókin mín.