Sérðu hvernig mér líður?
Ég er búin að vera að horfa svolítið út um gluggann í dag. Mér finnst gaman að horfa á umhverfið frá því sjónarhorni (í gegnum gler). Tilfinningin er ekki ólík því og þegar ég flýg til útlanda og þegar flugvélin lækkar flugið og hús og bílar fara að verða greinileg...annað líf en mitt...þá skynja ég mig sem voðalegan outsider.
Í dag er ég meiri outsider en venjulega. Í dag er ég með eyrnatappa. Mér finnst svolítið eins og ég sé ósýnileg þegar ég er með eyrnatappa.
Ég heyri ekki í neinum og enginn sér mig.
Að horfa út um gluggann með eyrnatappa, er eins og að horfa á raunveruleikasjónvarp í hægspilun. Þetta er allt eins og það á að vera en samt ekki.
Að sjá með augunum sínum
Það er stundum sagt að augun séu gluggi sálarinnar.
Tilhugsunin um að geta horft inn í sálina á fólki er ógnvekjandi en spennandi um leið.
Ég þekki strák sem segist geta séð það í augunum á mönnum hvort þeir séu kynferðisafbrota menn eða ekki.
Maður er oft voða naskur á að sjá þegar fólk er hamingjusamt.
Eigi leyna augu ef ann kona manni. Og svo mætti lengi telja.
Er þetta svona auðvelt?
Ef maður vill ekki láta aðra vita hvernig manni líður, getur maður þá ekki komið í veg fyrir að það komist upp? Segjum sem svo að manni líði ekki vel og sé sú manngerð sem vandræðast með þær tilfinningar inní sér í stað þess að draga þær í dagsljósið. Er þá nokkuð mál að fela það?
Getur maður ekki blöffað?
Ég held að maður geti blöffað. Ég held að maður geti látið alla halda að maður sé kátur og glaður, en verið í raun eitthvað allt annað. Ég held að maður geti látið alla halda að maður sé alveg brjálaður af reiði en sé það í raun ekki.
Ég held nefninlega að það sé ekki allt sem sýnist - með augunum.
<< Home