englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Maður er manns gaman

Ég hitti mann í gær. Hann var mjög skemmtilegur og ákváðum ég og vinkona mín að þetta væri nýji besti vinur okkar og buðum honum að setjast hjá okkur. Hann er noskur og lítur út eins og einhver sem er í auglýsingabransanum (sem hann reyndist svo vera í).
Eftir að hafa skiptst á að segja brandara í dágóða stund, kom að þessari klassísku spurningu: hvað ertu að gera hér á Íslandi?
Hann sagði mér að hann væri á einskonar ráðstefnu. Samtök sem hann tilheyrir í Noregi sendu fulltrúa sína til Íslands, til að hitta dóttursamtökin hér. Hann sagði mér að þetta væru fulltrúar 17 umdæma en samtökin hér á landi væru nokkuð minni, en bendir allt til þess að þau fari að stækka.

Þetta var orðið óskaplega spennandi og þó var hann ekki enn búinn að segja mér út á hvað þessi samtök gengju. Ég, verandi þessi forvitna manneskja sem ég er, vildi endilega fá að vita hvað málið væri með þessi samtök.
Hann færðist undan því að svara og sagði að þetta væri voðalega flókið mál að útskýra. Ég hélt kannski að hann treysti sér ekki til að segja mér þetta á ensku og bauð honum að buna þessu út úr sér á norsku (þar sem íslenskan er jú ekkert annað en old norsk - er það ekki annars?)

Nei, þar var ekki málið. Hann gat vel sagt mér þetta á ensku og gerði það svo fyrir rest.
Hann sagði mér að samtökin væru svona swingers klúbbur og "ráðstefnan" hér væri til að hjá dóttursamtökunum, hér á landi, að víkka út sína starfsemi og styrkja sig.

Ég sá hann alveg fyrir mér í sveiflunni en fannst þó frekar undarlegt að einhver norsk dans samtök væru að senda fulltrúa sína til Íslands (úr 17 umdæmum). Hann fór að hlæja þegar ég spurði hann hvernig stæði á þessu og sagði að þetta væru ekki danssamtök heldur væru þetta makaskiptasamtök.

þá var nú komið að mér að fara að hlæja. Ég tók þátt í þessu gríni í dágóða stund og ræddi þetta við hann - alveg þangað til að það rann upp fyrir mér ljós: maðurinn var alls ekkert að grínast!

Hann sagði mér að þetta væru alveg ótrúlega sniðug samtök, þar sem mottóið væri: "The more - the merrier" Þar væri hægt að vera með almenn makaskipti, karl og karl, kona og kona, margir saman, fáir saman en margir að horfa...möguleikarnir væru endalausir.
Hreint út sagt frábært!

Ég fann að þetta samtal var að taka stefnu sem ég var ekki neitt sérstaklega áfjáð í að fylgja og fór alvarlega að hugsa um að endurskoða vinskap okkar.
Þau hjónin voru búin að stunda þetta í einhver ár og það væri bara rosalega gaman. Afbrýðissemi væri ekki til staðar, en hann viðurkenndi þó að það gæti orðið vandamál ef fólk yrði "ástfangið" af einhverjum öðrum en maka sínum og vildi breyta um "fastamaka".

Vegna þess hvað ég er svakaleg tepra sagði ég honum að ég væri ekki hlynt svona háttum. Og ég væri svo eigingjörn að ég vildi síður deila maka mínum með einhverjum öðrum - hvað þá mörgum öðrum.

En hann var greinilega kominn í ham og vildi ólmur sannfæra mig um að þetta væri hið fullkomna skipulag. Hann var svo sannfærður um ágæti þessa kerfis að hann var tilbúinn til að fórna sér til að ég sannfærðist líka. Hann sagði mér að ef ég færi með honum og vini hans (kona hans var fjarri góðu gamni - heima í Noregi) þá gæti hann lofað mér að ég myndi upplifa hluti sem ég hefði aldrei upplifað áður!

Ég er nokkuð sannfærð um að það var rétt hjá honum en hugsaði með mér að það væri nú ekkert vit að láta alla draumana sína rætast..hvað ætti maður þá að láta sig dreyma um?