englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, september 01, 2004

Þroskamerki

Ég hef alltaf átt svolítið erfitt með IKEA. Ekki það að mér finnist leiðinlegt að fara þangað, heldur á ég voðalega erfitt með að hemja mig. Einhverra hluta vegna virðist ég alltaf eyða miklu meiri pening en ég ætla mér í upphafi IKEA ferðar.

Sem dæmi um þetta má nefna að einu sinni átti ég litla IKEA tréhillu, sem ég hafði spreyjað gyllta. Ég var búin að fá leið á gyllta litnum, en ekki hillunni sjálfri. Þessi hilla kostaði ekki nema 500 kr en í einhverju hagsýniskasti ákvað ég að pússa hilluna upp, frekar en að kaupa nýja.
En þegar ég var búin að djöflast á hillunni í rúman hálftíma og rétt búin með eitt lítið horn, ákvað ég að tími minn væri of dýrmætur fyrir þetta rugl og ég gerði mér ferð í stóru sænsku búðina. Hillan kostaði hvort sem er ekki nema 500kr og svo átti ég bæs, til að bera á hana.

Hins vegar þegar ég kom út úr búðinni var ég með vörur fyrir rúmlega 6000kr í pokanum mínum...

Ég fór aftur í IKEA í dag..
mig vantar hnífaparauppvasksdót. Það var ekki til eins og ég vildi. Nú úr því ég var komin gat ég allt eins rölt um og skoðað nýja dótið...
- nú er komið svona..en sniðugt!
- ohh, en fallegur litur á þessum kertum
- fínir kassar, þá má alveg geyma eitthvað sniðugt í þeim

Svo gerðist það...
einhver hvíslaði í eyrað mitt: Jóda, ertu viss um að þig vanti þetta? viltu ekki frekar fara með bílinn í viðgerð? Eða klára að kaupa skólabækur???
...og ég snéri við og skilaði öllu dótinu aftur á sinn stað. Gekk út - brosandi allan hringinn - alveg svakalega þroskuð og með mikinn sjálfsaga.

Ég átti líka erindi í Kópavoginn
úr því að ég var komin þangað, gat ég alveg eins skotist í Smáralindina - þurfti hvort eð er að tala við Ogvodafone strákana...

- Langt síðan ég hef komið hingað...
- Nei, en fínt...
- Vá alveg eins og mig hefur alltaf vantað...

ZARA...
Zara sem er komin frá sama landi og El Diablo...ætli það sé tilviljun???

Og ég sem hélt að ég væri orðin svo þroskuð..ætli ég sé bara IKEA þroskuð??