Sæt gömul kelling
Eftir að hafa velt þessu fram og aftur, hætt við nokkrum sinnum en ákveðið aftur..fór ég og keypti mér nýtt sturtuhorn í gær. Svakalega fínt, með alvöru gleri í og hurðum á hjólum og ég veit ekki hvað og hvað.
Í sömu búð fékk ég líka flísar sem fara inn í sturtuhornið. Frábær þjónusta í alla staði, strákurinn í flísadeildinni bauð mér meira að segja að koma til sín ef mér gengi illa að flísaleggja og hann myndi þá kenna mér þetta almennilega. Þ.e. ef ég finn ekki "how to flísalegg" á netinu.
Stolt segi ég systur minni frá þessari fjárfestingu. Sagði að flísarnar hefðu ekki kostað nema 3000 og sturtuhornið hefði kostað 18.000 en hafi átt að kosta 35.000.
ÓTRÚLEGT TILBOÐ!
Ég sagði henni að ég hefði notað svona afláttarmiða til að fá þennan afslátt.
Það var þögn í símanum.
- Finnst þér það ekki sniðugt? Er ég ekki hagsýn?
- Halló..ertu þarna?´
-Já, ég er hér..mér finnst það nú frekar plebbalegt.
-Ha..plebbalegt..er það? svolítið amerískt kannski..
Ég byrjaði að svitna og sá fyrir mér allar þessar bíómyndir þar sem verið er að gera grín að fólki sem verslar fyrir afsláttarmiða. Mundi meira að segja allt í einu eftir gamalli konu sem ég sá einu sinni í Bónus, með svona Bónusblað og var að versla eftir því...á þeim tíma hugsaði ég "en sæt gömul kelling"
Var svona komið fyrir mér?
Ég reyni eitthvað að klóra í bakkann í þessu samtali mínu við systur mína. Ég er ekki alveg tilbúin að viðurkenna plebbaskap minn án baráttu.
-En er ég ekki bara hagsýn...hmm?
Systir mín eins góðhjörtuð og hún er, vill ekki að mér líði illa og réttir mér strá:
- kannski svona hagsýnn plebbi!!!
Bætir svo við að það sé ekkert endilega slæmt. Það sé mjög misjafnt hvað fólk telur vera plebbahátt.
- Sumum finnst hagsýni vera plebbaskapur, öðrum finnst plebbalegt að lesa bækur...
- Plebbalegt að lesa bækur..nú er mér allri lokið.
Ég sá allt í einu líf mitt fyrir mér...krýning á Íslandsmeistarakeppninni í plebbaskap. Ég var í fyrsta sæti, fékk kórónu og allt. Bíl merktan titlinum mínum, tíu tíma í gerfibrúnku, mitt eigið stæði í Smáralindinni og ég veit ekki hvað og hvað...
Áður en hún færi að segja að sumum þætti plebbalegt að fara á hjóli í Bónus, sagði ég henni að ég yrði að hætta að tala við hana, því það væri verið að endursýna brúðkaupsþáttinn JÁ í sjónvarpinu og ég þyrfti að rjúka...
<< Home