englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

sunnudagur, september 12, 2004

Nornir í glerbúrum kasta steinum

Stundum skilur maður ekkert í því hvert lífið er að fara með mann.
Í gær fórum við Sverrir í sundlaug Vesturbæjar, til að fara í sturtu. Litla skinnið er með í eyrunum og mátti því ekki fara ofan í laugina.

Ég hef verið viðskiptavinur þessarar laugar í 21 ár (eða frá fæðingu) og þrátt fyrir marga galla hennar, finnst mér hvergi betra að vera og kem alltaf aftur og aftur.

Það er enn sami sundlaugavörður að vinna þarna og var að vinna þegar ég var í skólasundi.
Og það sem meira er, hún man eftir mér frá því í gamla daga!!!
Svona yndislegt er þetta.

Já, við sverrir ætluðum í sturtu...
Samviskusamlega rétti ég afgreiðslukonunni, sem er miðaldra með litað svart hár - og kannast ég ekkert við hana, kortin okkar mæðgna.

(Mér fannst svolítið merkilegt að kaupa fyrsta sundkortið fyrir Sverri. Fannst það vera pínu fullorðins. En það venst. Reyndar venst það svo vel að núna blóta ég því að þurfa að borga fyrir hann.)

Konan tekur við kortunum og réttir mér lykilinn minn og lítur á soninn og segir: "hann er strákur, er það ekki?"
Nokkuð augljóst finnst mér, en ég jánka því og bæti við að hann þurfi ekki lykil, þar sem hann fari með mér inn og noti skápinn minn.
- Já, en hann er strákur!!!
- Já, ég veit það en hann fer bara með mér inn...
- Já, en það eru stelpur þarna uppi og hann er strákur!!

Nokkuð augljóst fannst mér, en var ekkert að benda á það.

Við stóðum þarna í góða stund, ég og aumingjans Sverrir, sem skildi ekki neitt í neinu. Þar sem ég virkilega þurfti á baði að halda, reyndi ég eftir fremsta megni að halda ró minni.
Kellingin, með litaða hárið, sat bak við glervegginn sinn og ætlaði hreinlega ekki að gefa sig, var farin að tala um spéhræðslu sex ára stelpna og ég veit ekki hvað og hvað.
Ég sleppti því að benda henni á að það væri einmitt svona viðhorf sem gerði sex ára stelpur (og auðvitað stráka) spéhræddar.

Fyrir rest fengum við náðasamlegast að fara í sturtu.
Vorum ein í búningsklefanum, fyrir utan eina eldri konu.

Ég var alvarlega að hugsa um að skilja lykilinn eftir í búningsklefanum, svo ég þyrfti ekki að hitta nornina aftur. En tók á honum stóra mínum og fór niður með lykilinn.
Sem betur fer var hún fjarri góðu gamni og annað andlit, kunnuglegt og mjög vingjarnlegt, komið í hennar stað..ég skilaði lyklinum okkar með bros á vör og við héldum hrein og fín út í rigninguna.