englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, september 09, 2004

Sævar

Það er til maður sem heitir Sævar. Sævar er bifvélavirki og á heima á Seltjarnarnesinu. Ég er ekki alveg viss, en ég held að Sævar komi beint frá guði.
Í vetur bilaði bíllinn minn. Fyrst sprakk á honum (ok það er ekki bilun, ég veit það - en samt sem áður var hann óökufær). Gísli stjúpguðfaðir minn kom og lánaði mér tjakkinn sinn og gat ég druslast á honum heim - bílnum, ekki Gísla.

Til að auka skilning á því hvað ég meina með að druslast á bílnum heim, þá vil ég leggja áherslu á að þetta var á því tímabili vetrar sem snjóaði, og ég var enn á sumardekkjum (sem fóru svo beint í ruslið á dekkjaverkstæðinu 2 vikum seinna). Þannig að ég druslaðist.

Þegar heim var komið hringdi ég í Sævar frá guði og spurði hvort hann væri til í að skoða bílinn minn. Það væri svo lélegur gangurinn í honum. Sævar var auðvitað til í að skoða bílinn.
Daginn eftir að við Gísli höfðum skipt um dekk (nei, reyndar gerði Gísli það, ég var mest í því að búa til engla með Sverri) og ég á leið til Sævars - fór bíllinn ekki í gang.

Ég hringdi í Sævar og sagði farir mínar ekki sléttar. Það væri ekki nokkur leið að koma bílnum í gang. Hann sagði það nú ekki vera mikið vandamál, hann kæmi bara og sækti bílinn. Svo kom hann um kvöldið, við annan mann og dró bílinn minn á verkstæðið sitt.
Þegar bíllinn var tilbúinn fórum við Sverrir út á Nes til að sækja hann. Sævar gaf Sverri tvö súkkulaði, eitt til að borða strax og annað til að borða þegar kæmi nammidagur.
Svo sýndi hann mér ofan í vélinni hvað hann hafi lagað - áður en hann lokaði húddinu þá signdi hann vélina. Ég get svo guðslifandisvariðfyrirþað - þessi maður er náttúrulega ekki eins og við hin.

Núna um daginn fór ég með bílinn minn í skoðun. Ekki nema 5 mánuðum of seint - hvað er það? Tíminn er hvort eð er svo afstæður. Pústið er ónýtt. Án þess að ég sé nokkur bifvélavirki, þá hugsa ég að lætin í elskunni minn geti stafað af ónýtu pústi.

Og ég hringi í Sævar...

Auðvitað vill hann laga pústið mitt. Þegar ég kom til hans áðan, spurði hann mig hvort að það væri í lagi ef bíllinn yrði ekki tilbúinn fyrr en á morgun - hann þyrfti nefninlega að fara á annað verkstæði með hann (af því að hann á ekki svona lyftara)...svo bauð hann mér nammi.
Ég sagði honum að ég þyrfti ekki bílinn fyrr en á mánudaginn, því þá væri síðasti dagur fyrir endurskoðunina. Hann sagð þá að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því, hann færi með bílinn í skoðun fyrir mig...

Svo geri ég mig klára til að fara...þá segir hann: "hvernig ætlar þú að komast heim?" Það tók mig langan tíma að sannfæra hann um að ég væri vatnsheld og hefði gott af göngutúr og því þyrfti hann ekki að skutla mér heim...