englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

sunnudagur, september 19, 2004

manngæskan

Ég er í sjokki. Sjokk mitt er margfalt. Sjokk mitt er fyrst og fremst tengt því sem ég tel mig hafa orðið vitni af, en ekki minna vegna viðbragða "þartilgerðra aðila" þegar ég leitaði aðstoðar.

Ég fór út að skemmta mér á föstudagskvöldið. Það var mjög gaman, hitti fullt af skemmtilegu fólki. Fólki úr nútíð, fortíð og framtíð. Eins og svo oft áður barst leikur á 22.
Ég hef oft velt því fyrir mér, hvað málið sé með 22. Af hverju sæki ég svona í þennan stað? Hann er orðin óskaplega sjúskaður og andrúmsloftið þar er ekki ... jahh... segjum bara að Jesú myndi ekki vilja hanga mikið þar (nema þá kannski til að bjarga týndum sálum)

Á 22 hitti ég stelpu sem ég hafði hitt nokkrum helgum áður. Þá helgi höfðum við hist á klósettinu og blaðrað saman út í eitt. Lífleg og fjörug stelpa. Mjög skemmtileg.
Á föstudaginn var hún ekki í minna stuði. Greinilega mjög gaman hjá henni og vinkonum hennar.
Við töluðum ekki saman, vinkuðumst bara og brostum og héldum áfram að dansa við vini okkar.

Ég sá hana aftur þegar ég var að fara heim.

Hún var ekkert sérstaklega hress. Ég hugsaði með mér hvort gæti verið að hún væri orðin svona svakalega drukkin. Hún virtist ganga í leiðslu. Með henni var strákur. Ég horfði á þennan strák og fannst hann alls ekki vera týpa sem hún myndi vera með. En hvað veit maður svosem?
Ég veit það náttúrulega ekki, en ég fékk það á tilfinninguna, út frá samtali okkar á klósettinu fyrr í mánuðinum, að hún ætti ekki kærasta.
Hann studdi við hana, þannig að hún datt ekki.
Þau töluðu ekkert saman. Hún sýndi þess í raun ekki merki að hún þekkti hann nokkuð.
Þegar ég var komin út, sá ég þau aftur. Hún stóð framarlega til hliðar við hann og hélt hann í handlegg hennar, og virtist stýra henni.

Ég fór heim.

Í gærkvöldi var ég heima og var eitthvað að fara yfir kvöldið í huganum. Þá rifjaðist þetta atvik upp fyrir mér. Ef hún hefði verið svona drukkin og hefði verið að fara heim með kærastanum sínum, hefði hún hallað sér upp að honum og hann hefði haldið utan um hana (hann virtist vera nokkuð edrú). Ef þetta hefði verið einnar nætur fling, hefði slefið sjálfsagt ekki slitnað á milli þeirra.
Ég fékk sjokk. Hún var ekki að fara heim með honum. Þetta var ekki kærastinn hennar. Þetta var ekki einnar nætur gamanið hennar. Gat verið að hann væri að taka hana heim, án hennar samþykkis?

Guð minn góður! Af hverju sá ég þetta ekki? Af hverju talaði ég ekki við hana? Af hverju veit ég ekki hvað hún heitir?

Eftir að hafa hugsað um þettta í marga tíma, hringdi ég í mömmu. (Eins og allir vita, þá geta mömmur svarað öllum mögulegum og ómögulegum spurningum) Hún ráðlagði mér að hringja í Stígamót (sem reyndust svo bara vera með opið á virkum dögum!)
Út frá því hrindi ég í neyðarmótöku Landspítalans. Sagði konunni sögu mína og sagði að ef stúlkan hefði komið til þeirra, þá gæti ég lýst manninum nokkuð vel.
-Veistu hvað hún heitir?
- Nei, en ég get lýst henni mjög vel. Hún er mjög sérstök í útliti.
- Nei, ég get ekkert hjálpað þér. Það er ekkert skráð niður, ef hún hefur á annað borð komið hingað.
-Ég vil ekki fá neinar upplýsingar um hana. Vildi bara láta vita af mér. Ef ské kynni að hún hefði komið til ykkar. Þannig að þið gætuð haft samband við mig, ef þið hélduð að það gæti hjálpað.
- Það þarf fyst að biðja um hjálpina... þú verður að tala við hana sjálf

(NB ég var náttúrulega búin að segja konunni að ég þekkti þessa stelpu ekki og væri að fara þessa leið, vegna þess að ég vissi ekki hvernig ég ætti að nálgast hana.)

- ... hún veit ekki að ég sá hana..
- Því miður getum við ekkert gert... það sést hvort eð er ekki lengur í blóðinu hennar, ef henni hafa verið gefin nauðgunarlyf!

...

Og ég spyr...

Eigum við ekki að reyna að hjálpa? Jafnvel þó það sé langsótt og erfitt?
Og jafnvel þó að ekki sé bara með því að láta vita að maður sé til staðar, ef þörf sé á hjálp?