Meira um hagfræði
Í síðustu viku var ég alveg að gefast upp á þessu hagfræðinámskeiði sem ég er skráð í. Kennarinn þurr, leiðinlegur glærulesari. Ekki snefill af metnaði hjá honum til að gera efnið áhugavert.
Voginni var náttúrulega misboðið þetta óréttlæti að þurfa að sitja svona leiðinlegan kúrs (sem hún þarf reyndar alls ekki að gera - því þetta er auka, auka val), henni var einnig misboðið metnaðarleysi kennarans og deildarinnar... þannig að eftir að hún var búin að leggja fram semíformlega kvörtun, þá fór hún á stúfana og leitaði að nýju námskeiði til að sækja.
Eftir að hafa legið í einhvern tíma yfir kennsluskránni, þá mundi ég allt í einu eftir því að ég er ekki svona kvitter. Ég leita að mótvindi og legg svo af stað, beint upp í vindinn.
Þannig að ég ætla að harka þetta af mér.
Í morgun var kennarinn alveg jafn illa undirbúinn og í fyrri tímunum. Var alveg jafn óöruggur með dæmin sem hann var að gefa. Hann var alveg jafn mikill glærulesari og áður..en hann gerði eitt sem varð til þess að maginn á mér herptist saman og hefur ekki enn komist í samt horf aftur...
Hann sagði brandara.
Mér krossbrá. Ekki vegna þess að þessi "þurri, leiðinlegi maður" sagði brandara.. heldur vegna þess að mér fannst hann fyndinn!!!
Ætli geti verið að ég sé svona mikið kameljón?
Eða er ég kannski ekki með eins góðan húmor og ég hef hingað til haldið???
<< Home