englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, september 22, 2004

Kennarar

Í dag viljum við helst ekki setja börnin okkar á leikskóla, nema þar starfi fullt, fullt af leikskólakennurum. Það er ekki nóg fyrir okkur að leikskólastjórinn sé með þartilgerða menntun. Ó nei, a.m.k. einn á deild, takk fyrir. Helst allir.

Grunnskólakennarar eru í verkfalli í dag. Þeir krefjast launa sem er í takt við ábyrgð þeirra. Það verður alltaf erfiðara og erfiðara fyrir "leiðbeinendur" að fá vinnu sem kennara. Menntaðir kennarar ganga fyrir störfum í grunnskólum og eru "góðir leiðbeinendur" hvattir og studdir af skólayfirvöldum til að afla sér réttinda. Það heyrir algjörlega til undantekninga að við rekumst á kennara í prjónavestum, klossum og með kaffibollann í hendinni - þessa önnina hér og næstu önn í öðrum skóla. (Þetta eru ekki fordómar, heldur máttlaus leið til að lýsa minningu minni um réttindalausa kennara æsku minnar)

Það er biðröð fyrir utan framhaldsskólana. Fyrirgefið, biðraðirnar eru víst tvær. Önnur þeirra inniheldur nemendur sem ekki fengu inngöngu í skóla nú í haust - en menntamálaráðerra telur að þetta komi allt til með að leysast er líður að jólum. Hina röðina fylla framhaldsskólakennarar - sem ekki fá vinnu. Ef þú ert ekki með réttindi til að kenna í framhaldsskóla, er ómögulegt fyrir þig að fá vinnu þar. Ef þú ert með réttindi, gætir þú þrátt fyrir það þurft að standa í þessari röð í nokkur ár.

Þetta finnst okkur vera nokkuð eðlilegt. Við gerum réttilega kröfu um fagmennsku. Við viljum ekki að einhverjir vitleysingar sjái um þessi ábyrgðarmiklu verkefni. Kennslufræðin er vel viðurkennd fræðigrein. Í mörg horn er að líta og að mörgu að hyggja og allt það...

En í Háskóla Íslands er í gildi önnur stefna. Í Háskóla Íslands þarf enginn að vera með nein kennsluréttindi. Engrar grunnmenntunnar er krafist.
Í Háskóla Íslands komast kennarar upp með að segjast vera glærulesarar og það sé bara þeirra kennsluaðferð. Í Háskóla Íslands komast kennarar upp með að segjast ekki ætla að vera með verkefni, af því að þeir nenni ekki að fara yfir þau. Í Háskóla Íslands þurfa kennarar ekki að þekkja til neinna kennslufræða og finnst jafnvel í lagi að gera lítið úr þeim fræðum.

Léleg kennsla - léleg menntun? Ég skil ekki alveg af hverju við látum bjóða okkur þetta? Getur verið að við séum svona metnaðarlaus í okkar eigin garð? Ég veit það ekki. Ég veit þó að sumir "kennarar" hefðu gott af því að fá smá kennslu leiðbeiningar frá þartilgerðu fólki.

Þar til það gerist höldum við bara áfram að vona að við lærum eitthvað þegar við komum úr náminu...