Sund
Eftir að hafa valið Laugardalslaugina í síðustu sundferðum, vegna þess hve auðvelt er að smygla drengnum inn - vs. ómögulegt í Vesturbæjarlaug, ákvað ég að taka á honum stóra mínum og fara í hverfislaugina mína.
Ég spurði Sverri hvort hann vildi fara í strákaklefann, eða hvort við ættum ekki bara að smygla honum upp með mér?
Eftir umræður um það hvort nornin væri að vinna og hvernig þetta gengi allt fyrir sig, ákvað hann að fara niður í strákaklefann.
Rúnar tók á móti honum, sýndi honum skápinn hans, blandaði fyrir hann sturtuna og fylgdi honum út.
EKKERT MÁL!
Þegar við fórum upp úr, fór ég í stelpuklefann og Sverrir í strákaklefann. Ég er að blanda sturtuna mína, þegar ég sagt fyrir aftan mig: "mamma, ég finn ekki baðvörðinn!" Ég segi honum að fara niður og biðja einhvern sem er í sturtu að blanda fyrir hann. "Einhvern ókunnugan, mamma! má ég ekki bara fara í sturtu hér?"
Ég ráðlagði honum að fara aftur niður og leita aðeins betur að baðverðinum og ef hann kæmi ekki í leitirnar, þá væri örugglega í lagi að fá ókunnugan til að blanda sturtuna - hann myndi bara þakka fyrir sig og ekki tala meira við kauða. (þetta var náttúrulega algjörlega gengt minni sannfæringu, þar sem allsberir gamlir kallar í sturtu hljóta að vera perrar!)
Hann fór niður og fann Rúnar.
Hann sagði mér eftir sundferðina að honum þætti þetta eiginlega skemmtilegra en að fara með mér í stelpuklefann.
Ég hef það á tilfinningunni að ég sé að missa tökin. Þegar hann er farinn að geta blandað sturtuna sjálfur, er ég orðin óþörf. Af veikum mætti reyni ég þó að sýna að ég hef enn eitthvert vald - kortavald - með því að halda upp á fullorðins skrefið sem strákurinn tók, splæsti ég ís á línuna..og það ekki einu sinni á ísdegi!!!
<< Home