Dýrin
Ég í einhverju framtaksæðiskasti fór að taka upp úr pokanum sem Sverrir kom með úr leikskólanum síðasta daginn sinn. Ef ég man rétt þá var sá dagur einhverntímann í júni (þó á þessu ári).
Þar kenndi ýmissa grasa. Fullt af skemmtilegum myndum og öðru föndri. Ánægðust var ég þó með trölladeigsdótið.
Þetta voru tvö verk. Annað líktist einhverskonar eggjum, datt mér helst í hug köngulóa egg - svona þyrping. Seinna verkið var mun augljósara. Þó undarleg væri í laginu, var þetta greinilega kind.
Stolt móðir sótti nagla og hamar og kom naglanum haglega fyrir í "kindaveggnum" - á þeim vegg eru hlutir sem eru tengdir kindum, en þó súrríalískum kindum. Eins og t.d. eiturgrænt veggteppi úr þæfðri ull. Að mínu mati átti þessi kindarlega kind vel heima á þessum kindavegg.
Þegar Sverrir kom heim sýndi ég honum hvað ég hafði fundið. Aðspurður sagði hann að eggin væru egg (en ekki hvað?) Ég spurði hvernig egg og hann sagði þetta vera venjuleg egg, bara mörg í hrúgu.
Nú jæja, ekki köngulóaegg en egg þó.
- Ég fann annað líka, manstu eftir að hafa gert meira?
- Nei, hvað var það?
Ég fylgi honum að kindaveggnum og hann segir:
- já..alveg rétt
- hvað er þetta?
- Hæna..
Ég verð hálf kindarleg í framan og gef frá mér langt svona jaaaááá....
- En falleg hæna
- Hvað hélstu að þetta væri?
- hmmm... kind..
Þá lítur drengurinn á mig með augnarráði þess sem allt veit og beinir því að þeim sem ekkert veit:
- Kind með appelsínugulan munn!!!!
Maður þarf greinilega eitthvað að fara kíkja í gömlu dýrafræðibækur sínar...
<< Home