englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, september 29, 2004

Orðastelpa

Mig langar til að segja söguna af stelpunni sem elskar orð.
Hún elskar þau svo mikið að hún gleymir sér stundum í þeim. Hún tekur þau, hellir þeim í baðkarið og baðar sig í þeim. Sum orð gæla við hana. Orð eins og mjúkur, strjúka, sleikja, njóta og ást. Henni líður vel þegar þessi orð umljúka hana.
Það eru ekki öll orð sem eru góð við stelpuna. Orð eins og stinga, svíkja, hræsni og óheiðarleiki, eru henni erfið. En vegna þess að stelpunni finnst að allir eigi að vera jafnir, þá baðar hún sig líka í erfiðu orðunum.

Ég fann hana í vatninu og bað um sögu hennar.
Hvort ég mætti segja frá því hvernig orðin strjúka henni og stinga?

Hún horfði á mig blóðvotum augum og sagði:

"Það lekur úr augunum mínum
Ég horfi á þig og hjartað mitt fyllist angist
Þú svo fallegur
Ert hjá mér er ég horfi
Mig svíður í augun
Það er erfitt að halda þeim opnum svona lengi
Ef ég loka þeim hræðist ég að týna þér

Það blæðir
Lekur niður á hvít brjóst mín

Ástinni tek ég glöð með öllum sínum sársauka
Því þú ert hjá mér er ég horfi"

Svo lokaði hún augunum og rann til mín
Inn í mig
Skrifa um hana í leyni - elska hana opinberlega