englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, september 27, 2004

Píparar

Nú er mér allri lokið. Um daginn fékk ég til mín pípara. Ég hélt ró minni, jafnvel þó kauði færi illa með flísarnar mína og gerði holu í vegginn.
Hann var eitthvað svo mikil dúlla, með stýrurnar í augunum og hárið allt út í loftið.
Þegar ég horfði stórum augum á holuna í veggnum og spurði hann hvort hann ætlaði að laga þetta eftir sig, sagði hann bara "nei, en viltu að ég reddi múrara fyrir þig?"

Ég hugsaði með mér að þó ég gæti margt, þá væri múrverk ekki eitt af því...og ég ákvað að taka boðinu. Hann sagðist ekki alveg vita hvenær hann gæti komið, það væri mikið að gera hjá honum - því hann væri bara einn núna.
Hann lofaði að hringja í mig á næsta hálftíma, til að segja mér hvenær múrarinn kæmist.

Einum og hálfum tíma seinna hringir pilturinn (þ.e. píparinn með ógreidda hárið) og spyr hvort ég hafi verið að auglýsa herbergi til leigu.
Ég fór að hlæja og sagði svo ekki vera. "Nú" segir hann, mjög hissa í röddinni, "ég hef þá skrifað þetta eitthvað vitlaust niður"

Síðan er liðin vika og ég hef ekki heyrt meira í þessum pípara.

Pabbi vinkonu minnar kom og múraði upp í gatið og svo ætlaði ég núna í kvöld að skella blöndunartækjunum á..hugsaði með mér að ég gæti jafnvel farið í sturtu um helgina og ef ég væri ótrúlega heppin þá jafnvel fyrir helgi.

En auðvitað ekki...

Ég er búin að vera í hálftíma að reyna að ná þessum helv. töppum af rörunum í veggnum...rörin snúast alltaf með...og nú blóta ég því að hafa ekki leigt stráknum herbergi...það hefði verið svo fínt að hafa hann hérna hjá mér.