englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, maí 31, 2005

Heimur bestnandi fer

Ég verð að viðurkenna að mitt litla hjarta tók auka hamingjuslag við að lesa þessa frétt

föstudagur, maí 27, 2005

Afmæli

Sonur minn, ein aðalsöguhetja þessarar síðu á afmæli í dag. Hann er sjö ára.
Áður en hann fór að sofa í gær, sagði hann: mamma, það væri ótrúlegt ef ég myndi vakna í fyrramálið og væri kominn með skegg! Það væri alveg klikkað!!!

Get ekki annað verið en sammála því.

Dagurinn í dag er honum helgaður, kvöldið og nóttina á ég sjálf.

fimmtudagur, maí 26, 2005

Flugur

Hér er allt að fyllast af einhverjum litlum flugum. Er þetta bara hjá mér? Vinsamlegast lítið í kringum ykkur og látip mig vita. Takk fyrir.

Ekki gleyma ástinni

Sem betur fer eigum við flest ástvini. Einhverjir sem standa okkur nærri og við erum tilbúin að vaða eld og brennistein fyrir. Þrátt fyrir að við elskum og elskum erum við ekki alltaf að básúna elskuna okkar. Af hverju?

Mamma: Veistu hvað?
Barn: Já...þú elskar mig voða mikið.
Mamma: ha? hvernig vissir þú það?
Barn: Af því að þú ert alltaf að segja mér það.
Mamma: ó...viltu að ég hætti því?
Barn: Nei..aldrei hætta því. Ég fæ alltaf svona kipp í hjartað þegar þú segir það við mig.

Öll þurfum við ást á borði..en líka stundum í orði.

miðvikudagur, maí 25, 2005

Rúm

Þegar ég bjó um rúmið í morgun, leit ég út um gluggann. Þegar ég kom auga á gulan túlípanann rifjaðist upp fyrir mér ferðalagið okkar. Ég hafði ekki verið hrifin af túlípönum fyrr en þá. Hafði alltaf verið meiri rósakona. Í dag finnst mér ég vera margskonarkona. Hvort það er að einhverju leiti þér að þakka, skal ég ekki segja. En þú varst þarna og sást það gerast. Það er óumdeilanlegt.

Núna eru margir klukktutímar síðan ég hristi sængurnar, eftir leiki næturinnar, leit út um gluggann og lagaði koddana. Rúmteppið bíður eftir því að ég taki það og kuðli því saman.

Þegar ég sofna ætla ég kannski að hugsa til þín. Ég ætla örugglega að hugsa til túlípanans.

þið segið nokkuð

- There is plenty of sound in an empty barrel
- Trust in Allah, but tie your camel
- Allt er hey í harðindum, nema hey hey babbilúlla she's my baby

þriðjudagur, maí 24, 2005

Vinir og englar

Jóda: Ég fór til spákalls í gær.
Vinur: Nú?
Jóda: Hann sagði að ég væri lítill engill sem hefði lent hér á jörðinni. Fyrir slysni missti ég vængina mína. Ég geng svo um jörðina og leita að vængjunum og trúi því að mannfólkið sé svo góðhjartað að það hjálpi mér að finna þá. En það gerir það ekki. Ég þarf að finna þá sjálf.
Vinur: Eru þá allir vondir við þig?
Jóda: hahahaha..já einmitt!
Vinur: Kannski vill það ekki að þú finnir þá því þá flýgur þú kannski í burt? Hefur þú pælt í því?

mánudagur, maí 23, 2005

Upptekin

Vegna ótrúlega spennandi lífs og svakalegra anna í félagslífinu verð ég í bloggfríi fram á fimmtudag. Kem til baka uppfull af djúsí frásögnum af vafasömu, taumlausu líferni mínu.
Njótið lífsins á meðan það er.
Ást og kossar.

föstudagur, maí 20, 2005

Alveg eins og Icy...

Sat í pottinum klukkan tíu mínútur í sjö í gærkvöldi. Ég skildi ekki af hverju voru svona fáir í pottinum, ekki fyrr en talið barst að Eurovision. Keppnin var að fara að byrja. Þessi forkeppni, sem að sjálfsögðu var einungis formsatriði fyrir okkur Íslendinga, freistaði mín ekki...ég sé Selmu bara á laugardaginn.

Það er svo skemmtilegt með Eurovision að allir hafa eitthvað um hana að segja, hvort sem viðkomandi er hrifinn af keppninni eða ekki.

Talið barst að Icy. Manni í pottinum hafði verið boðið að horfa á keppnina í ...(man ekki hvar keppnin var haldin)... en fór ekki, var of fullur. Hætti að drekka skömmu síðar.

Icy...vá hvað við vorum hissa!

- Ætli Selma taki þetta?
- Jú, það finnst mér líklegt, en annars er ómögulegt að segja
- Já, það er rétt...en hún er í rauðu og rautt er líklegt til vinnings
- Já, hún er í vinningslitnum, það er á hreinu!

....

- Spáið í það hvað það yrði fyndið ef hún kæmist nú ekki upp úr þessari forkeppni!
- hahahaha... já, það yrði algjör þjóðarsorg
- hahahaha´... já einmitt, svona eins og með Gleðibankann
- Ætli hún verði ekki í topp þremur?
- Jú, það held ég alveg pottþétt...

Mér finnst íslendingar vera stórskemmtileg þjóð og er mjög stolt af því að vera íslendingur. Fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins "Niðurstaðan er hlægileg"

Bein tilvitnun í mbl.is: "Selmu Björnsdóttur og félögum gekk mjög vel að flytja lagið á sviðinu en áhorfendur í Evrópu virðast ekki hafa látið sér segjast og tóku önnur lög framyfir."

Ég er mað hugmynd: Á Íslandi búa núna fullt af þjóðernisbrotum. Er ekki málið að senda einhvern annan en Selmu, Stebba Hilmars eða Birgittu? Ég veit ekki betur en að við séum með fullt af hæfileikaríkum og klárum lögfræði og læknanemum frá Litháen og Lettlandi, sem vinna fyrir sé sem listdansarar á Íslandi. Er ekki málið að virkja þær bara?
Eins og maðurinn sagði einhverntímann: If you can't beat them - join them!

fimmtudagur, maí 19, 2005

Styrkur til þín

Ég hitt fyrrverandi samstarfskonu mína um daginn. Við erum á svipuðum aldri og framan af var hún líka einstæð móðir. Barnsfaðir hennar var einhvernvegin aldrei mikið inn í myndinni, ekki nema að mjög takmörkuðu leiti.
Má eignlega segja að þó við séum ekki mjög líkar í eðli okkar þá hafi lífshlaup okkar verið um margt líkt. Það er þó eitt sem aðskilur okkur framar öllu og það er að ég hef aldrei fengið krabbamein.

Hún hefur fengið krabbamein þrisvar.

Ég átti gott samtal við hana í gær og vorum við að fara yfir stöðuna. Hún vissi ekki alveg hvað barnið hennar vissi mikið, en hafði þó sagt við mömmu sína að hún mætti ekki deyja. Kærastinn hennar stendur eins og stytta við hlið hennar og gerir hvað hann getur. Þetta er bara ekki svo auðvelt.

Krabbamein er algengur sjúkdómur. Hún segir mér að þrír greinist á dag. En til að vera viss um að hún sé ekki að ýkja, segir hún mér að hún haldi að það sé reyndar bara verið að tala um virku dagana.

Læknirinn hennar er ekki búinn að ákveða hvaða lyf hún kemur til með að fara á núna, þar sem líkaminn hennar er hættur að sýna viðbrögð við gömlu lyfjunum. Það er um tvenn lyf að velja. Það er bara málið með aukaverkanirnar. Annað lyfið veldur heyrnaleysi en hitt skemmir nýrun.


Ég sendi henni og hinum tveimur sem greindust í gær og þeim þremur sem greinast í dag og þeim sem koma til með að greinast á morgun og á mánudaginn... styrk og hlýja strauma og vona að ef guð er til að hann fari að vinna vinnuna sína.

miðvikudagur, maí 18, 2005

Upphitunar hlaup

Ég er búin að vera frekar tvístígandi með það hvort ég meiki 30 km hlaupið næstu helgi. Ákvað því að hlaupa 25 km í gær, svona til að sjá hvort ég kæmi lifandi úr þeim.
Ég anda enn en get ekki sagt að ég hafi gert mikið meira en það í gær. Fór fyrstu 10 á góðum hraða og var full orku. Þegar 15 voru búnir var ég orðin mjög þyrst. Það er stundum talað um að það sé mjög vont að sjá og heyra í rennandi vatni, þegar maður þarf að pissa. Að sama skapi er mjög vont að sjá ekkert vatn þegar maður er þyrstur. Ég hljóp fram hjá 4 skraufþurrum vatnshönum en þegar ég var komin niður í Fjölskyldu og húsdýragarðinn hélt ég að þetta myndi bjargast. Ó nei aldeilis ekki. Stóra bláa vatnslistaverkið, var meira að segja jafn þurrt og munnurinn á mér.
Ég endaði með því að stökkva inn í félagsheimili Þróttar og leggjast undir kranann þar í smá stund og hélt svo för minni áfram.

Komin á Sæbrautina og 5 km eftir. Mikið langaði mig í kakó eða ís...af hverju í ósköpunum þáði ég ekki ísinn í Neshlaupinu síðustu helgi??? Ég myndi gefa hægri handlegginn fyrir smá bita af honum núna...
Úff hvað mér var orðið illt í kálfunum. Miklu verra að ganga heldur en hlaupa. Ég fann hvernig orkan hafði lekið úr mér og líkaminn hélt áfram af gömlum vana, svona eins og hænur sem halda áfram að hlaupa eftir að þær eru búnar að missa höfuðið.

2 km eftir... mmm..safaríkt epli..eða djús... já mig langar í djús með sódavatni útí og ís..
Ég fer út í sjoppu um leið og ég kem heim og kaupi mér sódavatn og ís. Svo leggst ég í sófann og horfi á sjónvarpið.

500 metrar...ohh ef ég væri með kortið í vasanum, þá þyrfti ég ekki að fara þessa aukametra til að sækja það!

Fór inn og sótti kortið. Það hafði blásið vel á mig alla leiðina og var mér því hálf kalt allan tímann og setti ég því á mig trefil áður en ég hélt út í sjoppu.
Fyrir utan húsið mitt var fallegi bíllinn minn og brosti til mín. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti kannski að fara á honum út í sjoppu. En ákvað að það væri hálf hallærislegt að fara þessa 300 metra á bíl, í hlaupagalla, til að kaupa sér ís..svo treysti ég mér heldur ekki aukaferð í tröppurnar, til að sækja bíllykilinn.
Þannig að ég skakklappaðist í sjoppuna, fékk mitt og fór heim.
Var svo þreytt að ég ákvað að bíða aðeins með sturtuna og fór í þurr föt og með sængina í sófann..Ég átti voðalega erfitt með að fá hita aftur í líkamann, gæti verið að ísinn og kalt sódavatnið hafi spilaði eitthvað inn í, en hlýnaði ekki fyrr en ég var komin í ullarpeysu og með auka teppi.

Í nótt var ég svo aum í líkamanum að ég hélt að ég myndi aldrei geta gengið aftur. Í dag líður mér betur, en veit ekki alveg með þessa 30 km...ráðfærði mig við mér eldri og reyndari konu og hún talaði um tveggja km aukningu á viku og 25 + 2 eru bara 27..sjáum til hvað setur...

Já ekki er öll vitleysan eins...

þriðjudagur, maí 17, 2005

allur er varinn góður

tilraun

Loksins

Eftir sólina sem er búin að skína um helgina ákvað ég að nú væri kominn tími til að fara á sumardekk. Reyndar er alltaf von á næturfrosti og snjókoman getur komið hvenær sem er..en ég tek þá bara vagninn.

Maðurinn á dekkjarverkstæðinu var alveg sammála mér með að ég gæti bara tekið strætó ef hann frysti mikið. En hann var hins vegar mjög hrifinn af bílnum mínum og spurði mig hvort ég ætlaði að selja hann.

Ég sagði honum sem var að ég hefði verið að hugsa um að selja hann í vor en hefði verið bent á að ég fengi ekki mikið fyrir hann og því hætt við. Hann spurði þá hvort ég vildi ekki selja hann, hann hefði bíl sem klæddi mig miklu betur. Væri miklu meiri bíll fyrir mig. Svo bendir hann út á bílaplan og þar blasir við mér svartur BMW.

Loksins maður sem sá mig í réttu ljósi.

Two out of three...

Er búin að vera að velta ástinni fyrir mér. Hvað vil ég fá og hvað vil ég ekki fá? Hef átt í nokkrum ófullnægjandi samböndum um ævina. Ekki nóg ást, ekki nógu mikið sameiginlegt, ekki nóg kynlíf, ekki nógu gaman, ekki nógu einlægt, ekki nógu spontant og ekki nógu skipulagt og svo mætti lengi telja. (Sem betur fer hefur þetta ekki allt verið í einu sambandi)

Eins og ég hef áður komið inn á, hefur móðir mín einhverjar áhyggjur yfir tengdasonaleysinu. Hefur velt því upp hvort ég sé jafnvel of pikkí. Ég veit það ekki. Ætli ég sé ekki ólæknandi rómantísk og hafi óbilandi trú á hinni einu sönnu ást. Ég er þó fallin frá ást við fyrstu sýn – amk svona opinberlega. Ég vil elska út um allt, ekki bara í hjartanu eða heilanum, heldur líka í tánum og eyrunum. Ég vil að ástin gagnteki mig, en þó að sjálfsögðu án þess að ég missi vitið.

Er ég þá of kröfuhörð? Ætti ég að sætta mig við að ástin mín sé ekki vond við mig? Eða að hún komi þó alltaf heim? Að hún skaffi vel? Að hún taki fullan þátt í heimilisverkunum? Að kynlífið sé gott? Ég veit það ekki.

Mér hefur alltaf fundist lagið hans Meat loaf vera mjög sorglegt. Two out of three...er bara ekki nógu gott fyrir mig og ég get heldur ekki boðið neinum upp á það frá mér.

Ég veit samt að ég get ekki fengið alveg allt. Ég er bara ekki alveg búin að finna út hvað það er sem ég er tilbúin til að vera án.

mánudagur, maí 16, 2005

Spilun

Í nótt var mér réttur gítar og ég beðin um að spila, sem ég og gerði. Eins og ég hefði aldrei gert annað. Það undarlega við þetta er að ég kann ekki að spila á gítar og hef aldrei kunnað. Hvað ætli þetta merki?

föstudagur, maí 13, 2005

Af pípurum 2

Sigmar skellti sér í beint eldhúsið og fékk sér kaffi. Sagði mér að hann hefði verið að klára að semja ljóð í nótt. Hann fór reyndar ekki með ljóðið en lýsti því vel fyrir mér og myndunum sem hann teiknaði með. Saman reyndum við að finna á netinu nafnið á uppáhalds spennusagnahöfundi hans, en án árangurs.
Kristján var eitthvað órólegur frammi á gangi og kíkti annað slagið inní eldhús til okkar og virtist vera feginn þegar pabbi hans fór.

Eitthvað virtist Kristján gangast upp í hlutverki bjargvættarins. Ég leit fram á gang en sá hann ekki, fann hann inn í stofu þar sem hann var byrjaður að hleypa lofti af ofninum mínum.

Næsta skref var ofninn inní svefnherbergi. Hvað er málið með þessa iðnaðarmenn? Ég sem hafði hallað hurðinni til að sleppa við að búa um rúmið. Ég þorði ekki öðru en að fylgja honum eftir, svona til að ganga úr skugga um að það væri ekkert þar sem ég vildi síður að hann sæi.
Fannst hálf hallærislegt að fara að æða í það að búa um rúmið, skaðinn var þegar skeður. Ég settist þess í stað vandræðaleg á rúmstokkinn og spjallaði um hillur.

Kristján segir: Jóda, af því að ég þekki þig nú svolítið...

Þetta er einhvernveginn erfið fullyrðing að heyra, svona í svefnherberginu - komandi frá manni sem einu sinni hafði verið elskhugi minn.

Hann heldur áfram

- Ef það kæmi ókunnugur maður inn í herbergið, hvað heldur þú að það væri það fyrsta sem hann tæki eftir og hvað heldur þú að hann hugsaði?

Ég fann hvernig ég hitnaði öll að innan og byrjaði í örvæntingu að líta í kringum mig. Tiltölulega lítið af fötum, rúmfötin hrein og ....
ó nei...risastór vaselíndolla á náttborðinu...

Nú var mér allri lokið. Mér leið eins og í fyrsta bekkjarpartýinu mínu, 11 ára í sannleikanum og kontor. Hnútur í maganum og aumingjahrollur eftir öllu bakinu.

- ehe..ég nota þetta sko á hælana...
- Já já..ég trúi þér alveg..gaman að þessu..ha?

Þegar hann fór, spurði hann mig hvernig ég vildi greiða þetta. Ég sagði honum að þar sem þetta væri fyrir húsfélagið, væri best að fá reikning og hafa þetta allt eins pottþétt og hægt væri. Hann kvaddi mig með orðunum að hann myndi renna með reikninginn til mín við tækifæri.

Spurning hvort ég ætti að fá hann til að kíkja á eldhúsvaskinn?

Af pípurum

Það var húsfundur frammi á gangi um daginn, þar sem var ákveðið að taka ofninn niður af kassanum og færa hann á gólfið.
Þekkti einhver pípara?
Jú, ég get reddað pípara. Ekkert mál. Fannst nokkuð til mín koma, þar sem ég var nú orðin húsvörður í húsinu og hafði iðnaðarmannasambönd.
Eftir að ég sagði Kristjáni pípara að það við værum í rosalegum vandræðum og ég væri sú eina sem þekkti pípara og hann væri einmitt sá maður, var hann fljótur að samþykkja það að koma og hjálpa stelpunni.

Við sátum í eldhúsinu og biðum eftir Sigmari. Sigmar ætlaði að hjálpa syni sínum að halda á ofninum. Ég veifaði húsvarðalyklakippunni framan í Krisján, án árangurs. Hann sagðist ekki efast um að ég væri voða sterk, en ég skildi bara geyma kraftana til annars konar átaka.

Á meðan við biðum töluðum við um daginn og veginn. Ég sagði honum að ég væri enn á vetrardekkjum og sagði honum að ég reyndi alltaf að sleppa við að fara með bílinn minn í smurningu og skoðun. Sagði honum að ég fengi svolítið kikk út úr því að sjá hvað ég kæmist upp með.

Hann horfir rannsakandi á mig og segir eftir stutta stund: þú ert svolítið fyrir að fara leiðir sem venjulega eru ekki farnar, er það ekki?
Ég finn að ég hitna í vöngunum. Geri ráð fyrir að hann sé að vísa til samtals sem við áttum þar sem rætt var hvort við ættum ekki stefnumót..en svo byrjaði ég í strákabindindi og þá var það útrætt.

Ég gef mér nokkurra sekúntna umhugsunarfrest, ákveð að ræða þetta deit-dæmi ekki, brosi breitt til hans, segi svo að mér finnist gaman að ögra lífinu og fari yfirleitt erfiðu leiðina að hlutunum.

Spennuþrungin þögn var rofin af dyrabjöllunni. Sigmar var mættur.

miðvikudagur, maí 11, 2005

Símtal

Kona á síma: (svarar þungri, áhugalausri röddu) Stéttarfélag háskólanema, góðan daginn - get ég aðstoðað?

- Nokkuð greinilegt að konan á símanum hefur fengið uppskrift af því hvernig best sé að svara í símann, en er ekki endilega sammála þeirri aðferð. Notast við hana til að halda vinnunni.

Námsmær: Já góðan daginn, ég þarf að fá upplýsingar varðandi veikindadaga námsmanna.
Kona á síma: (með sömu áhugalausu röddu) Ef þú ert veik þegar próf er, verður þú að hafa samband við lækni viðkomandi skóla sem kemur til með að skoða þig og skera úr um alvarleika veikinda þinna. Hann hefur síðasta orð um hvort þú færð að taka prófið seinna eða druslast í það núna.
Námsmær: já..nei nei..það er ekki þetta sem mig langaði að vita..ég hérna..
Kona á síma: hvað viltu vita?
Námsmær: Ég er að vinna að lokarannsókninni minni og er sæki ekki nein námskeið núna.
Kona á síma: Og hvað er málið..getur þú ekki bara unnið heima?
Námsmær: jú jú, ég get það sjálfsagt, en mér líður bara ekki sem best og kem ekki miklu í verk.
Kona á síma: það er ekki mitt vandamál.
Námsmær: Ha? nei nei..ég veit það
Kona á síma: er einhver tilgangur með þessu símtali? Ég er vinnandi kona, ólíkt sumum greinilega!
Námsmær: já, ég er að forvitnast um veikindadaga námsmanna sem eru að vinna að lokaverkefnum sínum. Hvernig gengur það fyrir sig?
Kona á síma: Nú, samkvæmt kjarasamningum Stúdentaráðs við Samfélagið, er gert ráð fyrir tveimur veikindadögum á önn, eða um það bil hálfum á mánuði. Hvað er kennitalan þín?

Námsmeyjan stynur upp kennitölunni sinni og konan í símanum slær tölunum á lyklaborðið og andar þungt í símann á meðan. Nokkrar mínútur líða. Námsmeyjan hugsar til þess þegar hún veiktist í byrjun annar og var rúmliggjandi í nokkra daga.

Kona á síma: Jaaá Gunnhildur...ertu með hita? (Nokkuð greinilegt að hún er með feril stúlkunnar fyrir framan sig á skjánum og þykir ekki mikið til hans koma)
Námsmær: ja..ég veit það ekki, ég held það. Mér líður þannig.
Kona á síma: hvað meinar þú? líður þannig? annað hvort ertu með hita eða ekki! Ertu ekki búin að mæla þig?
Námsmær: Ha..nei..
Kona á síma: gerðu það..
Námsmær: Núna..ok..á ég svo að hringja í þig aftur eða?
Kona á síma: nei, ég bíð.

Nokkrar mínútur líða og skemmtileg lyftutónlist ómar úr símtólinu á meðan skólastúlkan mælir sig.

Námsmær: Heyrðu, ég er ekki með neinn hita.
Kona á síma: Nei, mig grunaði það. Þá get ég ekkert gert fyrir þig. Held að það sé best fyrir þig að rífa þig upp úr þessum aumingjaskap og fara að koma þér að verki.
Námsmær: Ha..jaá..en..
Kona á síma: Heyrðu vinan! Ég er þegar búin að eyða of mörgum mínútum í þig. Það eru bara áætlaðar 2 mínútur í hvert símtal. Veistu hvað ég hef þurft að sleppa mörgum símtölum vegna þín? Og þú ert ekki einu sinni veik!!! Vertu þakklát fyrir að ég fer ekki lengra með þetta. Vertu sæl.

Já þeir eru góðir þessir kjarasamningar!
....

þriðjudagur, maí 10, 2005

Sá vægir sem..

Stíðinu er lokið. Eftir að hafa gefið mér stund til umhugsunar og virt sjálfa mig fyrir mér, með eyrað fast upp að veggnum að reyna að þurrka á mér hárið, gafst ég upp. Ég tók blásarann úr sambandi og byrjaði að leysa margra, margra vikna hnút.

Nú liggur litla dýrið í kassanum sínum með upprúllaða snúruna og ég er ekki frá því að ég heyri óminn af söng skrímslisins "we are the champions...."

Mér er alveg sama..ég er svo þroskuð...

mánudagur, maí 09, 2005

Brandarar

Ég heyrði nokkra misgóða/slæma brandara um helgina. Ég skelli einum fram hérna en læt fólki alfarið um að dæma um ágæti/slæmsku hans:

Vitið þið af hverju konur ganga alltaf í háum hælum og mála sig?

___________________________________________

Af því að þær eru svo litlar og ljótar!

Ákvarðanir

Ég tók svolítið skemmtilega ákvörðun í gærkvöldi:
Ég ætla að taka þátt í Rútuhlaupinu eftir 2 vikur. Það sem er svo skemmtilegt við þetta hlaup, er að það telur u.þ.b. 30km. Ég hef aldrei á minni lífstíð hlaupið svona langt...um að gera að prófa eitthvað nýtt.
Tveir hlutir sem á eftir að ganga frá áður en ég get lagt af stað:
1) hver getur litið eftir syni mínum, á meðan ég skýst þetta?
2) hver er til í að taka það að sér að nudda mig, vel og lengi, þegar ég er búin að skjótast?

sunnudagur, maí 08, 2005

Hjörtu

Það er mikið ábyrgðarhlutverk að hafa annarra manna hjarta inní sér. Ef maður þarf að hlaupa út í búð, verður maður að gæta vel að því - því maður veit ekki alveg hvað það þolir mikið.

föstudagur, maí 06, 2005

Leikir

Sverrir: Mamma, kanntu leikinn "Prins póló"?
Jóda: Nei..hvernig er hann?
Sverrir: Hann er rosasniðugur.
Það er sko þannig að einn segir der og hinn segir húfa..og þá segir hinn húfa og þá segir hinn der og þá hleypur einn og segir prins og sá sem nær að segja póló hann vinnur.
Jóda: Já..hmm...ég skildi þetta með prins/pólóið en ekki alveg með der/húfuna
Sverrir: nei, ekki ég heldur...

fimmtudagur, maí 05, 2005

skrýtið fólk á hlaupum

Ég hef alltaf sagt að hlauparar séu mjög sérstakir. Ég tók þátt í hlaupi í morgun og var ein af 363 hlaupurum. Ég skipti ekki um skoðun við það að sjá svona marga hlaupara saman komna, þeir eru mjög sérstakir. Þar sem ég stóð og nældi á mig númerið mitt, leit ég í kringum mig og byrjaði ósjálfrátt að flokka fólkið.

Þarna voru:
- Tísku hlaupararnir..stelpurnar með meik og maskara og strákarnir voða vel greiddir. Kannski að öllu jöfnu meira inni á líkamsræktarstöðvum en úti að hlaupa, nema þá í kúl félagsskap. Í flottum fötum. Ekki endilega bestu hlaupafötunum, en mjög flottum. Ég föst í mínum fordómum, hugsaði með mér að þetta væru örugglega flugfreyjur og eitthvað svoleiðis fólk..þar sem þetta var nú þannig hlaup.

- Hlaupahópa hlaupararnir..frábært fólk, sem hefur fyrst og fremst gaman af því sem það er að gera. Að hlaupa í svona hlaupi er þeirra djamm og röðin á klósettinu er miklu skemmtilegri við svona tilefni en á næturlífinu.

- Hlaupararnir..þeir sem eru bara svona nokkuð venjulegir íþróttamenn (stelpur og strákar) Einhverra hluta vegna duttu niður á hlaup sem íþrótt og kunna því bara vel. Hlaupa líka í hópum en eru samt í sérflokki. NB. Það er yfirleitt þetta lið sem fer heim með stóra bikarinn.

- Skrýtnu hlaupararnir..well..ég held þegar að öllu er á botninn hvolft, þá er það þessi flokkur sem kemur þessu “sérstaka” orði fyrst og fremst á annars mjög misleitan hóp fólks. Þeir eru í allskyns fötum. Kannski svolítið eins og hann hafi bara gripið næstu flík – hvort sem það er gamall stuttermabolur, joggingbuxur eða stuttbuxur. Þegar þú sérð skrýtin hlaupara standa í stað, gætir þú hugsað “hmm..já ákvað hann í morgun að fara að hlaupa þessi?” svo byrjar hlaupið og þú nærð varla að komast úr rásmarkinu, þegar skrýtni hlauparinn er kominn í mark.

- Hinir hlaupararnir..óskilgreindur hópur fólks sem veit ekki alveg hvað það er að gera. Kannski heldur það áfram og kannski ekki. Þessi hópur þarf kannski að skilgreina sig til að geta tekið einhverja stefnu?


Ég horfði á þennan hóp og fann gleðistrauma inní hjartanu mínu. Mér fannst ég vera í skemmtilegum félgasskap. Mér leið svolítið undarlega en samt vel. Þarna var ég mætt í gammósíum, gömlum bol og nýjum flottum rauðum jakka, vel úthvíld og hafði gleymt miðvikudagsdjammi. Fannst röðin á klósettinu miklu skemmtilegri en röðin á klósettinu á Thorvaldsen.
Við erum kannski bara öll skrýtin, alveg sama hvaða hópi við tilheyrum – bara í augum hinna?

Gamla konan

Ég hef stundum sagt söguna af því þegar ég ætlaði að loka augunum fyrir nýjasta æði Íslendinga: tölvum. Mér tókst það í dágóðan tíma. Ég átti fína ritvél og elska bókasöfn. Svo byrja ég í Háskólanum og var fljótlega neydd til að nota þennan óskunda. Gekk ekki betur en að ég var þekkt af skólafélögum mínum og kennurum sem "þessi sem ekki kann á tölvur" Og þá var ég í sagnfræði, þar sem enginn kann á tölvur - svo að hægt er að gera sér í hugalund hvað þekking mín var takmörkuð á þessu sviði.

Internetið...úff.. það var alveg sama hverju ég leitaði að..alltaf fékk ég klám.
Ritvinnslan - lærði í hitteðfyrra að gera copy - paste og í fyrra að gera cut - paste. Ég hélt að skólabróðir minn væri að tapa sér, þegar ég horfði á hann eyða út helmningnum af verkefninu okkar..og svo bara hókus pókus og það birtist aftur..á allt öðrum stað!

Í dag finnst mér ég vera orðin frekar tölvuvædd. Kveiki á tölvunni á hverjum degi og finn fullt af dóti á netinu..rekst aldrei á klám (segi ég, af því að þetta er opið bréf)og spila backgammon.

Þessa dagana er ég að skrifa meistararitgerðina mína. Flakka um allan heiminn fyrir framan litla skjáinn minn og finn heimildir og myndir og ég veit ekki hvað og hvað. Mér hefur samt ekki gengið neitt sérstaklega vel að semja texta fyrir framan skjáinn. Eftir að hafa vandræðast með þetta í þó nokkurn tíma, er ég búin að finna lausn sem hentar mér: Ég handskrifa fyrst og vélrita svo. Alveg eins og Gísli stjúpguðfaðir minn...og hann er kallaður Gísli Súrsson af nemendum sínum. Mér finnst Gísli kúl og ég líka, því ég er eins og Gísli.

Mér finnst massaflott að handskrifa mastersritgerðina sína!

miðvikudagur, maí 04, 2005

Loksins gaman

Ég var frekar fúl þegar ég leit yfir sjónvarpsdagskrá gærkvöldsins. Handbolti og Réttur er settur. Vorum við ekki búin að dekka þetta með íþróttirnar, þegar Sýn kom?
Ég meina ekki myndi það hvarfla að mér að bjóða fólki upp á að horfa á maraþon í sjónvarpinu - þó svo að mér þætti það kannski skemmtilegt (er nú samt ekki alveg viss um skemmtannagildi maraþonhlaups í sjónvarpi - well)

Til að sleppa við að horfa á handboltann ákvað ég að elda seint og var upptekin í eldhúsinu á meðan á þessum óskpum stóð. Svo kom matartími og þá var "Réttur er settur"

Andsk. hvað er í gangi hérna?

Ég lét mig nú samt hafa það að setjast fyrir framan sjónvarpið (ekki skárra efni á skjá einum - vala matt og hommarnir fimm) Svo sá ég Frey Björnsson og þá ákvað ég nú að gefa þessu lagadrama séns. Freyr Björnsson er nú einn af mínum uppáhalds mönnum (hann er sko ekki maðurinn minn, meira svona minn maður!)

Djísúss..hvað ég er fegin að Georg á ekki heima við hliðina á mér. Stína gamla myndi aldrei haga sér svona eins og þessi durgur gerði. Hákon var náttúrulega ferlega sorrý týpa en massa fyndinn samt sem áður. Þar sem þátturinn var unaðlega illa leikinn, átti hann vel heima í flokknum "íslenskt skemmtiefni"
Ég stóð mig að því að brosa breitt og hafa gaman af - sem er meira en gerist þegar ég horfi á "íslenska gamanþætti"

Meira svona!

þriðjudagur, maí 03, 2005

Stríð

Ég er búin að eiga í heilögu stríði undanfarnar vikur. Andstæðingur minn er ekki af verri endanum: hárblásarinn minn. Við erum ekki alveg að ná saman. Virðumst ekki hafa sama skilning á tilgangi blásarans.
Mér finnst að hann eigi að blása á mér hárið á fullum krafti, svo ég verði eins og Lucy í Dallas (Með sítt, liðað, ljóst hár og stór brjóst og glossibornar varir) En honum finnst hann eigi að fá að vera í friði, til að geta dundað sér við að snúa upp á snúruna sína. Hann segir að það komi mér ekki við hvað hann geri í frítíma sínum. Ég bendi honum á að það komi mér við, ef það bitni á vinnu hans.

Rétt eins og það er ekki í mínum verkahring að taka til í herbergi sambýlismanns míns, þá er það ekki mitt verk að leysa flækjuna sem blásarinn kemur sér í.

Þetta byrjaði í almennri þrjósku, en er nú orðið heilagt stríð. (Hjá okkur báðum)

Ástandið á heimilinu hefur versnað með hverjum deginum. Í tvær vikur hef ég þurft að standa þétt upp við vegginn, á meðan á blástri stendur, og þar af leiðandi ekki náð að sjá mig í speglinum - með afar misjöfnum árangri. Ég hef reynt hræðsluáróður og sagt við blásarann að ef hann hagi sér ekki, þá komi ég til með að kaupa nýjann og henda honum í ruslið. Hann svara með skætingi og segist vera félagi í Hárblásarafélagi Íslands, sem eigi aðild að Hárblásarafélagi Evrópu, og það sé borin von fyrir mig að fá annan blásara inn á þetta heimili.

Til að reyna að kaupa mér tíma, fór ég í klippingu. Snoðklippingin ætti að duga vel fram á sumarið. Ég gefst ekki upp þó á móti blási! Þetta stríð ætla ég að vinna!

mánudagur, maí 02, 2005

Endurfjármögnun rúlar

Við endurfjármögnun lána minna, minnkaði greiðslubyrði mín um 20 þúsund krónur á mánuði.
Þetta þýðir aðeins eitt:
Nýir skór og ný yfirhöfn í hverjum mánuði!!!

Er hægt að gera annað en að elska lífið, bankastarfsmenn og 40 ára lán?

sunnudagur, maí 01, 2005

Svona er þetta...

Mér líður stundum eins og guð sé að hjálpa mér. Það er búið að vera mikið uppgjörstímabil hjá mér undanfarið og virðist (andstætt því sem ég hélt) ekki sjá fyrir endann á því.
Enn ein yndisleg helgi að renna sitt skeið. Sonur minn hjá pabba sínum, en við erum bara búin að hanga í símanum í staðinn. Hann spurði mig í morgun hvar ég hefði verið deginum áður, hann hefði nefninlega komið og spurt eftir mér. Ég var ekki heima! Hann ætlar kannski að spyrja aftur eftir mér í dag..ef hann hefur tíma.

Ég hef verið að velta tímanum fyrir mér. Tíminn og sárinn, sem hann á að lækna og fólkið sem hann á að þroska og viðhorfunum sem hann á að breyta. Mikið á tímann lagt. Mér finnst gaman að finna hvað ég hef breyst. þá er ég ekki að tala um frá því þegar ég var unglingur, eða krakki, heldur síðan ég komst á fullorðinsárin.
Á síðastliðnum árum hef ég tekið miklum breytingum. Sum sár eru gróin, viðhorf mitt til margra hluta hefur breyst og ég hef svo sannarlega þroskast (að einhverju leiti).

Erfiðasta skref sem ég hef tekið hingað til, í mínu þroskaferli, er að viðurkenna ófullkominleika minn. Ég geri mistök og hef ekki alltaf rétt fyrir mér. Ég get verið frek og óþolandi.

Ég hitti mann um daginn. Þetta er einn af þeim einstaklingum sem ég virðist geta talað endalaust við. Skemmtilegar, uppbyggjandi og áhugarverðar samræður. Við áttum stefnumót fyrir fimm árum síðan. Þetta stefnumót var ekkert frábrugðið öðrum skiptum sem við höfum hisst. Við áttum skemmtileg samtöl, en þögðum þess á milli. Það er nefninlega líka gott að þegja með honum. Það var bara eitt sem gekk ekki upp...

Þegar hann horfði á mig, sá hann mig. Mér fannst mjög óþæginlegt að finna að einhver eintaklingur gæti séð raunverulegu Jódu..í stað þessarar sem hún setur fram..ef hann sæi mig, þyrfti ég kannski að sjá mig líka..og það var nú fullmikið af hinu góða. Við hættum að hittast.

Svo hitti ég hann aftur um daginn. Ég fann að við hefðum sjálfsagt getað talað saman í þessi fimm ár og þagað þess á milli. Þegar hann horfði á mig, sá hann mig og mér fannst það gott. Ég er nefninlega bara eins og ég er. Pínulítið svona og pínulítið hinsegin.

Svona fólk er mikilvægt að eiga að. Ég vona að við týnumst ekki aftur.