englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, maí 18, 2005

Upphitunar hlaup

Ég er búin að vera frekar tvístígandi með það hvort ég meiki 30 km hlaupið næstu helgi. Ákvað því að hlaupa 25 km í gær, svona til að sjá hvort ég kæmi lifandi úr þeim.
Ég anda enn en get ekki sagt að ég hafi gert mikið meira en það í gær. Fór fyrstu 10 á góðum hraða og var full orku. Þegar 15 voru búnir var ég orðin mjög þyrst. Það er stundum talað um að það sé mjög vont að sjá og heyra í rennandi vatni, þegar maður þarf að pissa. Að sama skapi er mjög vont að sjá ekkert vatn þegar maður er þyrstur. Ég hljóp fram hjá 4 skraufþurrum vatnshönum en þegar ég var komin niður í Fjölskyldu og húsdýragarðinn hélt ég að þetta myndi bjargast. Ó nei aldeilis ekki. Stóra bláa vatnslistaverkið, var meira að segja jafn þurrt og munnurinn á mér.
Ég endaði með því að stökkva inn í félagsheimili Þróttar og leggjast undir kranann þar í smá stund og hélt svo för minni áfram.

Komin á Sæbrautina og 5 km eftir. Mikið langaði mig í kakó eða ís...af hverju í ósköpunum þáði ég ekki ísinn í Neshlaupinu síðustu helgi??? Ég myndi gefa hægri handlegginn fyrir smá bita af honum núna...
Úff hvað mér var orðið illt í kálfunum. Miklu verra að ganga heldur en hlaupa. Ég fann hvernig orkan hafði lekið úr mér og líkaminn hélt áfram af gömlum vana, svona eins og hænur sem halda áfram að hlaupa eftir að þær eru búnar að missa höfuðið.

2 km eftir... mmm..safaríkt epli..eða djús... já mig langar í djús með sódavatni útí og ís..
Ég fer út í sjoppu um leið og ég kem heim og kaupi mér sódavatn og ís. Svo leggst ég í sófann og horfi á sjónvarpið.

500 metrar...ohh ef ég væri með kortið í vasanum, þá þyrfti ég ekki að fara þessa aukametra til að sækja það!

Fór inn og sótti kortið. Það hafði blásið vel á mig alla leiðina og var mér því hálf kalt allan tímann og setti ég því á mig trefil áður en ég hélt út í sjoppu.
Fyrir utan húsið mitt var fallegi bíllinn minn og brosti til mín. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti kannski að fara á honum út í sjoppu. En ákvað að það væri hálf hallærislegt að fara þessa 300 metra á bíl, í hlaupagalla, til að kaupa sér ís..svo treysti ég mér heldur ekki aukaferð í tröppurnar, til að sækja bíllykilinn.
Þannig að ég skakklappaðist í sjoppuna, fékk mitt og fór heim.
Var svo þreytt að ég ákvað að bíða aðeins með sturtuna og fór í þurr föt og með sængina í sófann..Ég átti voðalega erfitt með að fá hita aftur í líkamann, gæti verið að ísinn og kalt sódavatnið hafi spilaði eitthvað inn í, en hlýnaði ekki fyrr en ég var komin í ullarpeysu og með auka teppi.

Í nótt var ég svo aum í líkamanum að ég hélt að ég myndi aldrei geta gengið aftur. Í dag líður mér betur, en veit ekki alveg með þessa 30 km...ráðfærði mig við mér eldri og reyndari konu og hún talaði um tveggja km aukningu á viku og 25 + 2 eru bara 27..sjáum til hvað setur...

Já ekki er öll vitleysan eins...