englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, maí 17, 2005

Two out of three...

Er búin að vera að velta ástinni fyrir mér. Hvað vil ég fá og hvað vil ég ekki fá? Hef átt í nokkrum ófullnægjandi samböndum um ævina. Ekki nóg ást, ekki nógu mikið sameiginlegt, ekki nóg kynlíf, ekki nógu gaman, ekki nógu einlægt, ekki nógu spontant og ekki nógu skipulagt og svo mætti lengi telja. (Sem betur fer hefur þetta ekki allt verið í einu sambandi)

Eins og ég hef áður komið inn á, hefur móðir mín einhverjar áhyggjur yfir tengdasonaleysinu. Hefur velt því upp hvort ég sé jafnvel of pikkí. Ég veit það ekki. Ætli ég sé ekki ólæknandi rómantísk og hafi óbilandi trú á hinni einu sönnu ást. Ég er þó fallin frá ást við fyrstu sýn – amk svona opinberlega. Ég vil elska út um allt, ekki bara í hjartanu eða heilanum, heldur líka í tánum og eyrunum. Ég vil að ástin gagnteki mig, en þó að sjálfsögðu án þess að ég missi vitið.

Er ég þá of kröfuhörð? Ætti ég að sætta mig við að ástin mín sé ekki vond við mig? Eða að hún komi þó alltaf heim? Að hún skaffi vel? Að hún taki fullan þátt í heimilisverkunum? Að kynlífið sé gott? Ég veit það ekki.

Mér hefur alltaf fundist lagið hans Meat loaf vera mjög sorglegt. Two out of three...er bara ekki nógu gott fyrir mig og ég get heldur ekki boðið neinum upp á það frá mér.

Ég veit samt að ég get ekki fengið alveg allt. Ég er bara ekki alveg búin að finna út hvað það er sem ég er tilbúin til að vera án.