englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

föstudagur, maí 13, 2005

Af pípurum 2

Sigmar skellti sér í beint eldhúsið og fékk sér kaffi. Sagði mér að hann hefði verið að klára að semja ljóð í nótt. Hann fór reyndar ekki með ljóðið en lýsti því vel fyrir mér og myndunum sem hann teiknaði með. Saman reyndum við að finna á netinu nafnið á uppáhalds spennusagnahöfundi hans, en án árangurs.
Kristján var eitthvað órólegur frammi á gangi og kíkti annað slagið inní eldhús til okkar og virtist vera feginn þegar pabbi hans fór.

Eitthvað virtist Kristján gangast upp í hlutverki bjargvættarins. Ég leit fram á gang en sá hann ekki, fann hann inn í stofu þar sem hann var byrjaður að hleypa lofti af ofninum mínum.

Næsta skref var ofninn inní svefnherbergi. Hvað er málið með þessa iðnaðarmenn? Ég sem hafði hallað hurðinni til að sleppa við að búa um rúmið. Ég þorði ekki öðru en að fylgja honum eftir, svona til að ganga úr skugga um að það væri ekkert þar sem ég vildi síður að hann sæi.
Fannst hálf hallærislegt að fara að æða í það að búa um rúmið, skaðinn var þegar skeður. Ég settist þess í stað vandræðaleg á rúmstokkinn og spjallaði um hillur.

Kristján segir: Jóda, af því að ég þekki þig nú svolítið...

Þetta er einhvernveginn erfið fullyrðing að heyra, svona í svefnherberginu - komandi frá manni sem einu sinni hafði verið elskhugi minn.

Hann heldur áfram

- Ef það kæmi ókunnugur maður inn í herbergið, hvað heldur þú að það væri það fyrsta sem hann tæki eftir og hvað heldur þú að hann hugsaði?

Ég fann hvernig ég hitnaði öll að innan og byrjaði í örvæntingu að líta í kringum mig. Tiltölulega lítið af fötum, rúmfötin hrein og ....
ó nei...risastór vaselíndolla á náttborðinu...

Nú var mér allri lokið. Mér leið eins og í fyrsta bekkjarpartýinu mínu, 11 ára í sannleikanum og kontor. Hnútur í maganum og aumingjahrollur eftir öllu bakinu.

- ehe..ég nota þetta sko á hælana...
- Já já..ég trúi þér alveg..gaman að þessu..ha?

Þegar hann fór, spurði hann mig hvernig ég vildi greiða þetta. Ég sagði honum að þar sem þetta væri fyrir húsfélagið, væri best að fá reikning og hafa þetta allt eins pottþétt og hægt væri. Hann kvaddi mig með orðunum að hann myndi renna með reikninginn til mín við tækifæri.

Spurning hvort ég ætti að fá hann til að kíkja á eldhúsvaskinn?