skrýtið fólk á hlaupum
Ég hef alltaf sagt að hlauparar séu mjög sérstakir. Ég tók þátt í hlaupi í morgun og var ein af 363 hlaupurum. Ég skipti ekki um skoðun við það að sjá svona marga hlaupara saman komna, þeir eru mjög sérstakir. Þar sem ég stóð og nældi á mig númerið mitt, leit ég í kringum mig og byrjaði ósjálfrátt að flokka fólkið.
Þarna voru:
- Tísku hlaupararnir..stelpurnar með meik og maskara og strákarnir voða vel greiddir. Kannski að öllu jöfnu meira inni á líkamsræktarstöðvum en úti að hlaupa, nema þá í kúl félagsskap. Í flottum fötum. Ekki endilega bestu hlaupafötunum, en mjög flottum. Ég föst í mínum fordómum, hugsaði með mér að þetta væru örugglega flugfreyjur og eitthvað svoleiðis fólk..þar sem þetta var nú þannig hlaup.
- Hlaupahópa hlaupararnir..frábært fólk, sem hefur fyrst og fremst gaman af því sem það er að gera. Að hlaupa í svona hlaupi er þeirra djamm og röðin á klósettinu er miklu skemmtilegri við svona tilefni en á næturlífinu.
- Hlaupararnir..þeir sem eru bara svona nokkuð venjulegir íþróttamenn (stelpur og strákar) Einhverra hluta vegna duttu niður á hlaup sem íþrótt og kunna því bara vel. Hlaupa líka í hópum en eru samt í sérflokki. NB. Það er yfirleitt þetta lið sem fer heim með stóra bikarinn.
- Skrýtnu hlaupararnir..well..ég held þegar að öllu er á botninn hvolft, þá er það þessi flokkur sem kemur þessu “sérstaka” orði fyrst og fremst á annars mjög misleitan hóp fólks. Þeir eru í allskyns fötum. Kannski svolítið eins og hann hafi bara gripið næstu flík – hvort sem það er gamall stuttermabolur, joggingbuxur eða stuttbuxur. Þegar þú sérð skrýtin hlaupara standa í stað, gætir þú hugsað “hmm..já ákvað hann í morgun að fara að hlaupa þessi?” svo byrjar hlaupið og þú nærð varla að komast úr rásmarkinu, þegar skrýtni hlauparinn er kominn í mark.
- Hinir hlaupararnir..óskilgreindur hópur fólks sem veit ekki alveg hvað það er að gera. Kannski heldur það áfram og kannski ekki. Þessi hópur þarf kannski að skilgreina sig til að geta tekið einhverja stefnu?
Ég horfði á þennan hóp og fann gleðistrauma inní hjartanu mínu. Mér fannst ég vera í skemmtilegum félgasskap. Mér leið svolítið undarlega en samt vel. Þarna var ég mætt í gammósíum, gömlum bol og nýjum flottum rauðum jakka, vel úthvíld og hafði gleymt miðvikudagsdjammi. Fannst röðin á klósettinu miklu skemmtilegri en röðin á klósettinu á Thorvaldsen.
Við erum kannski bara öll skrýtin, alveg sama hvaða hópi við tilheyrum – bara í augum hinna?
<< Home