englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

sunnudagur, maí 01, 2005

Svona er þetta...

Mér líður stundum eins og guð sé að hjálpa mér. Það er búið að vera mikið uppgjörstímabil hjá mér undanfarið og virðist (andstætt því sem ég hélt) ekki sjá fyrir endann á því.
Enn ein yndisleg helgi að renna sitt skeið. Sonur minn hjá pabba sínum, en við erum bara búin að hanga í símanum í staðinn. Hann spurði mig í morgun hvar ég hefði verið deginum áður, hann hefði nefninlega komið og spurt eftir mér. Ég var ekki heima! Hann ætlar kannski að spyrja aftur eftir mér í dag..ef hann hefur tíma.

Ég hef verið að velta tímanum fyrir mér. Tíminn og sárinn, sem hann á að lækna og fólkið sem hann á að þroska og viðhorfunum sem hann á að breyta. Mikið á tímann lagt. Mér finnst gaman að finna hvað ég hef breyst. þá er ég ekki að tala um frá því þegar ég var unglingur, eða krakki, heldur síðan ég komst á fullorðinsárin.
Á síðastliðnum árum hef ég tekið miklum breytingum. Sum sár eru gróin, viðhorf mitt til margra hluta hefur breyst og ég hef svo sannarlega þroskast (að einhverju leiti).

Erfiðasta skref sem ég hef tekið hingað til, í mínu þroskaferli, er að viðurkenna ófullkominleika minn. Ég geri mistök og hef ekki alltaf rétt fyrir mér. Ég get verið frek og óþolandi.

Ég hitti mann um daginn. Þetta er einn af þeim einstaklingum sem ég virðist geta talað endalaust við. Skemmtilegar, uppbyggjandi og áhugarverðar samræður. Við áttum stefnumót fyrir fimm árum síðan. Þetta stefnumót var ekkert frábrugðið öðrum skiptum sem við höfum hisst. Við áttum skemmtileg samtöl, en þögðum þess á milli. Það er nefninlega líka gott að þegja með honum. Það var bara eitt sem gekk ekki upp...

Þegar hann horfði á mig, sá hann mig. Mér fannst mjög óþæginlegt að finna að einhver eintaklingur gæti séð raunverulegu Jódu..í stað þessarar sem hún setur fram..ef hann sæi mig, þyrfti ég kannski að sjá mig líka..og það var nú fullmikið af hinu góða. Við hættum að hittast.

Svo hitti ég hann aftur um daginn. Ég fann að við hefðum sjálfsagt getað talað saman í þessi fimm ár og þagað þess á milli. Þegar hann horfði á mig, sá hann mig og mér fannst það gott. Ég er nefninlega bara eins og ég er. Pínulítið svona og pínulítið hinsegin.

Svona fólk er mikilvægt að eiga að. Ég vona að við týnumst ekki aftur.