englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Súkkulaði og drullusokkar

Fór og kvaddi veturinn í gær. Þessi vetur er búinn að vera merkilegur að mörgu leiti. Mjög lærdómsríkur og þroskandi en að sama skapi afskaplega fljótur að líða.

Hitti mann sem sagði mér frá því þegar hann fór í Hagkaup til að kaupa drullusokk og endaði með því að kaupa "i love you" súkkulaði handa konunni sinni. Hann fékk aðsvif og endaði með súkkulaðið í lófanum. Reyndar keypti hann drullusokkinn líka. 340 krónur...

þá allt í einu fór ég að spá: Af hverju í ósköpunm er maður að hanga á börum og dansiböllum í leit að hinum eina sanna drullusokki? Leggja í ófrádráttarbæran kostnað, eins og snyrtivörur, fatnað og áfengi.. Endalaust prófa nýja drullusokka... þegar maður getur fengið hinn fullkomna í Hagkaupum á aðeins 340 krónur???

Hitti líka konu sem sagði mér að þegar hún hafi sest niður eftir matinn, til að ná restinni af fréttunum, hafi maðurinn hennar komið með kaffi og sett við hliðina á bollanum innpakkað súkkulaði sem á stóð "i love you". Fyrsta hugsunin hennar var "þú kannt ekki að vera rómantískur, hver sagði þér eiginlega að gera þetta?" en hún sagði það ekki, stóð bara upp, kyssti manninn sinn og sagðist líka elska hann.

... seinna heyrði ég mann segja: ég meina, þó ég hafi skrifað það í dagbókina mína, að vera rómantískur þennan dag, þá þýðir það ekki að ég sé það ekki!