englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, apríl 19, 2005

lyklar

Það er ekki alltaf allt í drasli hjá mér, bara stundum. Ég er orðin mun huggulegri í umgengni en ég var á árum áður. Í gamla daga leið mér best þegar var drasl í kringum mig. Gat ekki lært nema helmingurinn af fötunum mínum væri á gólfinu, og hinn helmingurinn væri dreyfður um rúm og stóla.

Í dag, get ég helst ekki lært nema að allt sé í röð og reglu. ok næstum því allt. (maður verður nú að halda í örlítinn part af viltu hliðinni sinni)

Það virðist samt ekki skipta nokkru máli hvort það sé drasl eða ekki í kringum mig, stundum á ég mjög erfitt með að finna hluti. Gleraugun mín eru gott dæmi. Ég týni þeim amk einu sinni á dag. þá erum við að tala um að týna þeim. Ég finn lyklana mína sjaldnast í fyrstu atrennu, þegar ég er á útleið og aldrei ef ég er að flýta mér. Af öllu mínu stöffi virðist ég sjálf, prívat og persónulega, oft á tíðum vera týndust af öllu..

en stundum koma hlutirnir samt svo áreynslulaust til mín að það er eiginlega átakanlegt.

Ég var í gufu í gær og þá fékk ég allt í einu stein í hausinn, eða eldingu eða kannski fór þokan bara.. ég veit það ekki..

Ég amk skildi allt í einu hvað ég vildi. Mér leið eins og að lífið hefði ekki bara tekið nýja stefnu, heldur var ég allt í einu komin á einhvern annan veg.

Ég upplifði eitt af stóru mómentunum mínum í gær.

Agalegt að hugsa til þess að á svona merkilegum tímapunkti hafi ég verið með brúnflekkótta leggi - muna: aldrei setja á sig brúnkukrem á síðustu stundu...í lítilli birtu. Amk ekki ef á að leysa lífsgátuna nokkrum dögum seinna.