Feministar
Ég kenni mig við móður mína og er mjög stolt af því nafni sem ég ber. Ég tók þessa ákvörðun eftir margra ára umhugsun og miklar vangaveltur. Þrítug fór ég að standa í því að hringja í hinar ýmsustu stofnanir og láta vita að ég væri nú Margrétardóttir (sem ég hef þó verið alla tíð).
Flestir taka þessu með besta móti. Spyrja kannski hver ástæðan sé. Ég hef reyndar verið spurð að því hvort að það kæmi til greina að svissa aftur yfir...svona ef ég myndi taka kallinn í sátt aftur. Rétt eins og ég hafi tekið upp á þessu, gagngert til að stuða hann. Mergurinn málsins er að hann kemur þessu ekkert við. Það er heila málið.
Ég fór í atvinnuviðtal um daginn. Eins og gefur að skilja var ég spurð margra spurninga. Að mínu mati ekki allar jafn viðeigandi. Ég var t.d. spurð að því hvort ég væri ekki þeirrar skoðunnar að hlaup væru slæm fyrir líkamann. Nokkrar í þessum flokki komu, en áhugaverðust var þó spurninginn hvort ég væri feministi?
Ég náði einhvernvegin að klóra mig fram úr þeirri spurningu án þess að vera dónaleg (vona ég) en þó líka án þess að afneita skoðunum mínum. Seinna var ég á spjalli við lokaverkefnisleiðbeinanda minn. Við erum eitthvað að ræða um mína björtu framtíð og hvernig mér gangi í atvinnuleitinni. Hann kemur þá inn á þetta með kenninafnið mitt. Hann sagði að það væri alveg pottþétt eitthvað sem allir myndu taka eftir og setja spurningarmerki við.
Er ég þessi reiða rauðsokka? Hata ég alla karlmenn? Er ég kannski lesbía? Hvað er málið?
Ég fór heim og eins og svo oft áður, lagðist ég niður og fór að hugsa. Ég man alveg eftir því þegar ég tók fyrst eftir konum sem kenndu sig við mæður sínar. Alltaf tengdi ég þær að einhverju leiti við kvennabaráttuna. Hvort sem það voru mæðurnar sjálfar sem stóðu fyrir því að breyta nöfnum dætra sinna eða þeirra sjálfstæða ákvörðun. Oftar en ekki hef ég líka tengt þetta við, þó það væri ekki nema örlitla, reiði.
Svo fór ég að hugsa um strákana. Ég hugsaði um Heiðar Helguson, Jón Sæmund Auðarson og fleiri til. Þetta eru ekki reiðir feministar. Þetta eru töff strákar. Þeir lenda ekki í því í atvinnuviðtölum að vera spurðir að því hvort þeir séu feministar. Ekki frekar en þeir lenda í því að vera spurðir hvort þeir hyggi á barneignir á næstu árum.
Ég verð stundum svo leið. Jafnréttisbaráttan okkar er svo stutt á veg komin að meira að segja það sú "feminíska" leið að skipta um kenninafn, er álitin kúl hjá strákum en öfgakennd hjá okkur stelpunum.
<< Home