Hvaða bull er þetta?
Sá á forsíðu málgagnsins að verið sé að vinna að gerð starfslokasamnings fyrir Auðun. Inní blaðinu fjallar Ingi Rúnar Eðvarsson um mannauðsstjórnun og mikilvægi þess að gæta fagmennsku í starfsmannavali. Mæli auðvitað með því fyrir alla, sem ekki skilja útá hvað mannauðsstjórnun gengur að lesa þessa grein - gefur örlitla innsýn inn í þennan galdraheim. Athuga ber þó að þetta er alls ekki tæmandi lýsing.
Ef Auðun fær starfsloka samning er mér allri lokið. Kannski þetta hafi ekki verið svo bilaðar vangaveltur hjá syni mínum fyrir nokkrum árum? Getur verið að ég hafi áður sagt þessa sögu hér, en sjaldan er góð vísa of oft kveðin og saga sögð:
Mig minnir að það hafi verið starfslokasamningur forstjóra símans sem hristi allrækilega upp í landanum. Hin bráðfyndna Spaugstofa gerði að sjálfsögðu grín að þessu málefni, enda skondið með afbrigðum. Sverrir horfir á þáttinn (var það ungur að hann horfði á endursýninguna um morguninn, var farinn að sofa þegar frumsýningin var) - Seinna um daginn erum við að keyra og hann spyr mig hvað starfslokasamningur sé. Ég útskýri fyrir honum að maður fái stundumstarfslokasamning þegar maður hættir í vinnu sem maður hefur unnið í (sleppi leiðinlegu smáatriðunum), samningurinn feli í sér peningagreiðslu en mismunandi sé hvað samningurinn sé feitur. Fari svolítið eftir því hvað klúðrið er stórt.
Seinna um daginn er pilturinn kominn til pabba síns. Þeir feðgar eru eitthvað að gaufa saman og þá heyrist í þeim styttri:
- Pabbi, hvenær fæ ég starfslokasamning?
Einhvernveginn finnst mér eðlilegra að 3-4 ára gamallt barn láti sér detta þetta í hug, frekar en fullorðinn maður. Ég hló að syni mínum, en mér er ekki hlátur í huga í dag.
<< Home