englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, mars 31, 2005

Óraunverulegur raunveruleiki

Ég las einu sinni bók. Bókin byrjar á því að sonur kemur inn í líkhús, til að kveðja föður sinn - látinn. Kemst þá að því að pabbi hans var kona. Kona sem hafði klæðst sem karlmaður og lifað sem karlmaður, svo lengi sem sonur hans mundi - og miklu lengur en það.

Eitthvað finnst manni þetta óraunverulegt. Strákurinn var reyndar ættleiddur, þannig að ekki var það vandamál. En mamman/eiginkonan var ekki samkynhneigð. Hún var gift karlmanni. Hjónin ræddu aldrei um þetta mál (vandamál myndu sumir segja) og lifðu alla sína hjónabandstíð, sem maður og kona.

Ástæðan fyrir því að konan tók upp á því að útbúast og lifa sem karlmaður var sú að hún var djassisti. Spilaði á trompet. Var ekki tekin alvarlega sem kvenkynsdjassisti og í stað þess að gefast upp, fór hún þessa leið. Hún/hann sló í gegn. Enginn vissi.

Yeah rigth! hugsar maður.

Þessi saga er þó ekki úr lausu lofti gripin. Höfundur hennar (Jackie Kay) ákvað að skrifa hana eftir að hún las um djassista. Þessi var píanóleikari. Karlmaður. Þegar hann deyr, kemur í ljós að hann er hún. Þessi mæti (og frægi) píanóleikari hafði ekki átt eina konu eins og söguhetjan okkar, heldur þrjár. Og engin þeirra vissi að þær væru giftar konu. Aldrei.


Það er líklegt að svona aðstaða komi manni í örlítið ójafnvægi. Svo ekki sé meira sagt.