Af kóngum
Jæja nú erum við alveg rétt bráðum að fá nýjasta íslendinginn okkar til landsins. Það var nú ekki seinna vænna að við tækjum að okkur annað sirkusdýr, það er svo langt síðan að Keikó dó.
Ég skildi aldrei almennilega hvernig stóð á því að við tókum Keikó að okkur. Ekki frekar en ég skil af hverju við erum að flytja Bobby Fischer inn til landsins.
Við erum náttúrulega mjög sérlunduð þjóð. Erum vön að haga okkur eins og kötturinn sem fer sínar eigin leiðir. Setjum það ekki fyrir okkur að fara upp á móti áhrifa miklum þjóðum, jafvel þó að það setji alþjóðasamstarf okkar í hættu. Reyndar finnst mér það eina jákvæða í þessu Fischer máli vera að við settum okkur upp á móti Bandaríkjunum. Svolítið úr karakter, en þar er okkur rétt lýst: svolítið úr karakter, og okkur er alveg sama.
En þegar Bobby kominn og líklegast farinn? Hvað gerum við þá?
Mér dettur í hug að við ættum jafnvel að snúa okkur að íslenska unglingsstráknum sem situr í stofufangelsi í Bandaríkjunum. Svona úr því að við erum farin í slag við krýnda kónga yfirborðsmennskunnar. En það gengur kannski ekki? Við viljum auðvitað halda áfram að vera best í öllu (samkvæmt höfðatölu) og við höfum ekki enn fengið titilinn "konungar yfirborðsmennskunnar" og okkur langar í hann. Þannig að við höldum áfram markvisst að reyna við titilinn og látum strákinn dúsa í sínu stofufangelsi. Hann fór jú í læknisleik sem barn og eins og við vitum þjóða best, þá er það ávísun á lífstíðar fangelsi að beita fólk kynferðislegu ofbeldi. Það er einmitt þess vegna sem við látum kynferðisafbrotamenn dúsa marga mánuði í fangelsi eftir að hafa nauðgað oft og ítrekað.
<< Home