englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, mars 17, 2005

Þetta var nú gott...á mig

Ég hef stundum gert grín að okkur íslendingum. Við erum mjög sérstök þjóð, ég held að því verði seint neitað. Uppfull af þjóðerniskennd og rífum kjaft við kónga og presta. Við erum best, mest og frábærust. Við erum fallegust, gáfuðust og listrænust og ég veit ekki hvað og hvað.

En við nennum ekki að mótmæla. Auðvitað blöskrar okkur að kennarar séu með svona lág laun. Auðvitað erum við mjög langt því frá ánægð með hvernig olíufélögin tóku okkur í rassgatið (ósmurt mundu jafnvel sumir segja). Við erum líka - mörg okkar - ekki par hrifin af þessari stóriðjuvæðingu. LÍN - vá..hvar á ég að byrja?

En...nei...við nennum ekki að mótmæla. Getur ekki einhver annar gert það? Ég þarf að fara í vinnuna. Var akkúrat á leiðinni á kaffihús. Hvað get ég svosem gert????

Ég er ekkert undanskilin.

Það er allt búið að vera vitlaust í Rúv undanfarna daga. Ég hef ekki alveg vitað hvað mér hefur átt að finnast um þetta allt saman. Reyndar hefur mér stundum verið hugsað til ormagryfu Þorgerðar Katrínar og vorkennt Auðunni voðalega mikið. Þvílíkt lið þarna í útvarpinu! Allt í rugli og fólk bara neitar að vinna með þessum manni.

Svo sá ég starfsferils- og menntunnarskrá þeirra fimm sem Bogi mælti með og hans Auðunns.
Ok! Nú skil ég þetta. Maðurinn er kannski ekki alveg rétti maðurinn í þetta starf.

Og þá rann upp fyrir mér ljós.

Það sem starfsfólk útvarpins hafði verið að gera, var ekkert annað en það sem ég hef alltaf verið að gagnrýna íslendinga fyrir að gera ekki. Og ég leit niður á þau fyrir það! Mér fannst þau vera með yfirgang og frekju, þegar þau voru í raun bara að gera það sem manneskjur eiga að gera: krefjast virðingar.

En ég dreg það nú samt ekkert til baka, að ekki vildi ég fyrir mitt litla líf vera Auðunn Georg Ólafsson.