Atvinnuviðtöl
Ég er búin að fara í nokkur atvinnuviðtöl undanfarið. Eftir að hafa stúderað "atvinnuviðtalsfræðin" finnst mér þessi viðtöl oft á tíðum vera ósköp amatörsleg. Ég má samt ekki við því að setja mig á háan hest, þar sem ég er þeim meginn við borðið sem ég er.
Þrátt fyrir að vera yfirleitt nokkuð örugg með mig og viss um eigið ágæti, þá veit ég samt aldrei hvernig hinir koma til með að sjá mig og upplifa. Eitthvað sem ég teldi vera fyndið eða eitthvað sem ég teldi svo sjálfsagt að ég tæki ekki einu sinni eftir því að ég segði það, gæti stuðað spyrla það mikið að ég kæmi ekki lengur til greina í "hið eftirsótta starf"
Ég horfði á Kastljós um daginn, þar sem Ágúst og Kristín voru í hálfgerðu atvinnuviðtali. Það eru margir á kjörskrá og sjálfsagt nokkrir eins og ég - og nenna ekki á kostningafundi eða hafa sig ekki í það að lesa heimasíðu þeirra.
Ég varð óskaplega glöð að fá þetta beint í æð, þar sem ég lá í sófanum. Var ekki enn búin að taka endanlega ákvörðun, mikil innri togstreita og magabólgur. (Ok ekki mikil togstreita, en ég hugsaði samt um þetta). Ég hlustaði og hlustaði.
Óskaplega titraði rödd Ágústar og hvað skrjáfaði í blússunni hennar Kristínar. Hún var samt með mjög milda rödd, ég velti því fyrir mér hvort mér þætti það kostur eða galli. Var ekki enn búin að ákveða mig.
Það er ekki mikið sem skilur á milli feigs og ófeigs. Stundum bara ein setning eða eitt orð.
Ágúst var að mæra starfið sem hafði farið fram í Háskólanum undanfarið og sagði eitthvað á þá leið: Við erum búnir að byggja upp mikið... bla bla bla...
Og ég hugsaði með mér að það væri nú gott að hann og hinir strákarnir eru búnir að byggja upp svona fínan háskóla.
Ég hins vegar ætla að kjósa stelpuna með mjúku röddina, í skrjáfublússunni.
<< Home