englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

föstudagur, mars 04, 2005

Skemmtilegt fólk

Ég hitti félaga minn í gær. Við höfðum ekki sést í nokkurn tíma og vorum við eitthvað að spjalla um daginn og veginn. Hann sagði mér að nú byggi hann í nágrenninu (við mig og bókhlöðuna, þar sem við vorum að spjalla).
Þar sem frænka mín hafði sagt mér að hann hefði ekki viljað segja henni hvar hann byggi, ákvað ég að nú væri lag og spurði hvert hann hefði flutt. Hvort við værum miklir nágrannar eða...?
Ég hafði mjög gaman af því að sjá að hann fór undan í flæmingi en vildi samt ekki vera dónalegur við mig. Og ákvað ég að nýta mér það.

Jú, jú, hann var bara hinu megin við Hringbrautina... "Já er það?" segi ég skeppnan. "Ertu þá í Melunum..eða?" Ég sé hvernig hann roðnar og verður eitthvað kjánalegur og svo viðurkennir hann að hann búi á Hringbrautinni. Hann búi þar í herbergi, með aðgang að baði. Hann hafi viljað hafa þetta eins einfalt og ódýrt og hægt er.

Ég er þeirrar skoðunnar að fólk vilji ekki sitja eitt að leyndarmálum og var hann ekkert að afsanna þessa kenningu mína þarna. Um leið og hann var búinn að viðurkenna fyrir mér hvar hann byggi, þá var eins og losnaði um málbeinið. Honum fannst þetta miklu þæginlegra (miðað við síðustu staðsetningu sína), nálægðin við skólann var ótvíræður kostur og svo bjó hann einn. Og það er gott fyrir svona einfara.
Ég horfði á hann og hugsaði með mér: einfari eða ekki, amk svakalegur sérvitringur.
Úr því að ég var byrjuð, var eins gott að halda áfram og ég spurði hann hvort hann þyrfti að deila baðherberginu með mörgum. En það var ekki. Bara einum fullorðnum manni, sem var svona einfari eins og hann. Mjög rólegur og þæginlegur maður. Enda eins gott, því ekki er gott að deila baðherbergi með hverjum sem er.

Fjölskylda mannsins býr öll í hverfinu og er þessi félagi orðinn hálfgerður partur af þeirri fjölskyldu. Fullorðni maðurinn á eina stúlku á sama aldri og félagi minn (nær þrítugu en tvítugu) og kemur hún stundum í heimsókn. Svo kemur fólkið á hæðinni fyrir ofan og hengir upp þvottinn sinn.

Mér finnst voðalega gott að tengja hlutina við mat svo ég segi: "Já, svo við eigum sama bakarí?"
"Jaá" segir hann dræmt, "svo er það náttúrulega Kjötborg og Pétursbúð"
Þegar ég segi honum að ég versli aðallega í Kjötborg, vegna nálægðarinnar, segir hann að hann verði bara endilega að kíkja einhverntímann í heimsókn.

Þá var komið að mér að roðna. Sumt fólk er gaman að hitta og spjalla við og jafnvel fara á kaffihús með, en ég var ekki alveg viss um að ég vildi mikið vera að fá hann í heimsókn. Þannig að ég fer eitthvað undan í flæmingi og segi honum að ég sé nú eiginlega aldrei heima. Ég sé alveg á fullu í þessu margblessaða verkefni mínu (ég mátti alveg segja það, af því að ég er búin að vera alveg svakalega dugleg í nokkra daga) og þá er eins og birti yfir andlitinu hans.

Hann skildi mig.

Hann sagði að það væri eiginlega alveg það sama með sig. Hann kæmi eiginlega bara heim til að borða, sofa og hugleiða. Og við þá iðju vildi hann ekki láta trufla sig.
Hann viðurkenndi fyrir mér að ég væri fyrsta manneskjan sem hann segði hvar hann byggi. (Hann er n.b. búinn að búa þarna síðan á haustdögum) Fjölskylda hans byggi nokkrum götum frá og þau vissu ekki einu sinni hvar hann héldi til. Hann ætti líka félaga, sem gætu tekið upp á því að droppa við í heimsókn og þá væri hann kannski nýbúinn í hugleiðslu og væri að fara að fá sér að borða...the rest goes without saying...

Boðskapur helgarinnar: Ef þú villt ekki fá fólk í heimsókn - Ekki segja því hvar þú býrð