englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, mars 02, 2005

Hvað ertu eiginlega að gera?

Ég er að reyna að koma mér almennilega að verki í rannsókninni minni. Mér sýnist samt að ég sé með framkvæmdarkvíða á millistigi. Það lýsir sér þannig að ég fer yfirleitt og geri eitthvað. En hvað ég geri er svolítið á huldu, og þá ekki síst fyrir mér.
Finnst svolítið eins og ég sé ekki með upphaf og enda, svona eins og á hnykklunum. Heldur frekar eins og ég sé með grein, með mörgum, mörgum kvíslum. Og ég veit ekkert um hvaða kvísla ég á að byrja á.
Ætla samt að lesa smá sögu í dag. Fátt eins uppbyggilegt og að lesa sögu atvinnuleysis á Íslandi.

Svo er ég að bíða eftir að málarinn hringi í mig. Ég á nú ekkert endilega von á því að hann geri það fyrir föstudaginn. En hey! er maður ekki vanur að bíða eftir því að karlmenn hringi í sig? Og af hverju ekki að gera eitthvað sem maður er góður í og gerir nokkuð fyrirhafnarlaust?

Ég kvíði fyrir næstu 9 dögum. Sverrir er að fara til pabba síns og verður hjá honum í rúma viku. Ástæðan fyrir því er sú að hann er búinn að vera hjá mér í voða, voða marga daga. Ég afvandist viku/viku skiptunum og vil bara hafa hann hjá mér.

Ég er með eitthvað stöff undir fætinum. Þarna á svæðinu sem heitir ekki neitt. Ekki il og ekki hæll og ekki táberg - heldur hitt. Mig klæjar og ég á vont með að hlaupa. Sem er nú ekki gott, því veðrið er gott.

Ég er ekki ástfangin, meira svona pirruð. Líður vel, en samt illa. Á elskhuga sem vill ekki vera kærastinn minn.

Er loksins að lesa Da Vinci lykilinn. Er komin á blaðsíðu 112 (einn-einn-tveir) og í raun ekkert farið að gerast en ég er samt spennt. Undir venjulegum kringumstæðum væri ég hætt, en veit ég geri það ekki þarna. Enda ekki venjulegar kringumstæður.

Svo velti ég því líka stundum fyrir mér hvernig ég eigi að borga framkvæmdirnar á stigaganginum. Það komu engin tilboð í bílinn. Ég er farin að hallast að því að það fólk sem hefur verið að dáðst að kagganum, hafi í raun verið að gera grín að honum! Getur það verið?

Svaf vel, dreymdi skemmtilega og er nokkuð massíf í hjartanu - held að ég geti bara tekist vel á við daginn.