englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, mars 14, 2005

Fuglaflensa

Fuglaflensan virðist vera lífseig. Fyrst þegar ég heyrði af henni varð ég smá smeyk, svo hætti ég því. Í morgun var þó verið að segja frá því í fréttunum að vísindamenn og læknar í Asíu væru hræddir um að heimsfaraldur gæti farið af stað. Þessi flensa virtist vera að smitast á milli manna og óttuðust þeir að milljónir manna myndu láta lífið.

Það er alltaf svolítið skerí að heyra svona fréttir. Ég varð allt í einu fegin að vegabréfið mitt var útrunnið og stóð mig að því að vona að við einangruðumst svolítið hérna á Íslandi. Það er nú alls ekki svo slæmt að vera hér í hreina loftinu og tæra vatninu. Og svo eru íslenskir karlmenn svo svakalega sterkir og við öll svo klár að tefla.

Fréttamaðurinn hélt áfram: vísindamenn höfðu sérstakar áhyggjur af tveimur mönnum sem veiktust, og að því er virtist höfðu smitast af fjölskyldu sem þeir höfðu verið að hjúkra. Við nánari skoðun kom í ljós að annar þeirra hafði smitast af öðrum manni. Ekki í fjölskyldunni. En sá maður hafði smitast við það að drekka hrátt andablóð!

Mikið óskaplega sem ég þarf að vera þyrst, ef ég fer að drekka andablóð, þar sem fuglaflensu faraldur geysar!
Það er náttúrulega ekki í lagi með þetta lið!