englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, mars 08, 2005

Einn og þrír

Ég loka augunum og hugsa um þrjá. Ef ég hefði þrjár hendur, eins og ég hef þrjár geirvörtur, gæti ég haldið í þær allar á sama tíma. Ég gæti staðið á höndum og vinkað. Ef ég hefði þrjá fætur, gæti ég hlaupið eins og þrífætt stelpa. Kannski hefði ég fimmtán tær? Þá gæti ég örugglega sparkað út í loftið án þess að missa jafnvægið.

Ef ég hefði þrjú höfuð, þyrfti ég að kaupa mikið af andlitskremi. Ef ég hefði þrjá nafla, þyrfti ég að fara að finna hinar mömmurnar mínar.
Ef ég hefði þrjú hjörtu, gæti ég elskað mikið meira. Ef ég hefði þrjú hjörtu, gæti ég án nokkurra vandræða gefið þér eitt og haldið áfram að lifa - bara nokkuð eðlilegu lífi.

Ég er alls ekki að segja að þú sért hjartalaus. Það er frekar svona eins og hjartað þitt sé bilað. Og eins og með allt í dag, þá er það einnota. Betra að fá nýtt en gera við.

Ef ég hefði þrjá heila í stað þriggja hjarta, myndi ég kannski geta talið mér trú um að ég ætti ekki að vera að standa í þessari vitleysu. Þá myndi ég kannski læra af reynslunni. Kannski.

Mikið er ég glöð í eina hjartanu mínu að ég er bara með einn heila. Ég stend í báðar fætur og veifa þér af öllum kröftum með báðum höndum. Ég veit ekki hvort ég er að veifa þér "hæ" eða "bæ" enda með svo lítið af öllu...