englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, mars 16, 2005

Hor og hráki

Ég hef svolítið verið að velta því fyrir mér hvort ég eigi ekki að reyna að verða mér út um hlaupafélaga. Finn að mig vantar keppni, svo ég bæti mig - líka til að ég hundskist út þegar letin er að drekkja mér.
Ég er nú búin að láta hlaupahópinn í Vesturbæjarlauginni vita af mér og sagði þeim að ég kæmi einn góðan veðurdag. Hugsaði með mér að ég nennti nú ekki að fara að byrja að hlaupa með einhverju ókunnugu fólki í janúar...en nú er kominn mars. Well.´

Eins og Gísli á Uppsölum, þá hef ég þróað með mér ákveðna hegðun sem kannski "hinum" finnst ekki endilega ákjósanleg eða smekkleg. Mín hegðun snýr að hlaupunum. Ég hræki út í eitt og snýti mér eins og 10 sjóarar.

Hef stundum velt því fyrir mér í vetur, þegar ég er að hlaupa í rokinu og kuldanum, að kannski fari bara best á því að ég hlaupi ein áfram. Ég fæ þessar hugdettu þegar ég snýti mér út í rokið og enda kannski með draslið í andlitinu. Ég reyni vissulega að snúa mér frá vindi en ekki að honum, þegar þessi úrgangslosun á sér stað. Yfirleitt tekst það mjög vel. Hrákinn fýkur nettur til hliðar og ég er laus allra mála.

En ef ég væri að hlaupa með einhverjum og ég tala nú ekki um ef ég væri inní hópi fólks þá væru góð ráð dýr. Er ekki viss um að það sé til mikið af fólki sem tæki því að á það væri hrækt - nb við erum ekki að tala um eitt skipti á leiðinni. Ég er því síður örugg um að það finnist mikið af fólki sem kynni því vel að fá hor á sig...jafnvel þó það komi úr mínu fallega nefi.

Ég sé ekki alveg lausn á þessu vandamáli...