englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

þriðjudagur, mars 22, 2005

Er verið að fylgjast með manni?

Fyrir nokkru síðan datt hilla sonar míns í sundur. Ég er búin að fara nokkrar ferðir í Góða hirðinn en aldrei séð neitt sem mér lýst nógu vel á. Er líka búin að fara nokkrar ferðir í Ikear og var búin að fá augastað á eina nokkuð góða.
Var búin að bera hana undir Sverri og fá hana samþykkta. Það eina sem mig vantaði núna voru peningar til að sleppa við að stinga henni óséð ofan í tösku. Var ekki enn búin að sjá hvernig það vandamál yrði leyst.

Svo hringdi dyrabjallan mín. Það var Úlli nágranni, sá sami og hafði gefið mér símanúmerið hjá Sævari bifvélavirkja. Úlli er mikill framkvæmdamaður, hann ætlar t.d. að byggja ofan á húsið sitt og er búinn að koma ófáar ferðir með teikningarnar - í svona grendarkynningu.

Ég opnaði fyrir Úlla og það fyrsta sem hann sagði var að hann væri ekki með neina pappíra til að láta mig skrifa undir. (Alveg eins og sölumaður, hugsaði ég) Hann væri hins vegar með hillu, vantaði mig nokkuð hillu? Hann væri sko með tvær mjög fínar hillur, hann væri búinn að setja aðra í geymslu en fór svo að hugsa hvort hann gæti ekki gefið einhverjum hina?

Ég stökk með honum yfir og leit á gripinn. Ekkert smá fín hilla. Hann og sonur hans báru hana yfir til mín. Það verður gaman hjá okkur Sverri um páskana. Að raða í hillur er hin besta skemmtun.