englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, mars 28, 2005

Maður spyr sig

Við Sverrir vorum úti að keyra um daginn:

Mamma, hvernig var "og" skrifað þegar þú varst 4 ára?
Ég svara samviskusamlega: og
S: Já, er það? Veistu að einu sinni var "og" skrifað "ok"?
(Kannski hann sjái mig ekki eins mikla stelpu og ég hef hingað til haldið?)

Ég hef annars stundum velt því fyrir mér hvort ég ætti að taka kristnifræðina fastari tökum á heimilinu. Ég hef tekið þá ákvörðun að reyna frekar að útskýra fyrir honum hvernig ég sé þetta (og svo hvernig hinir kjánarnir sjá þetta) og láta hann svo taka sjálfstæða ákvörðun út frá því.

Runnu samt á mig tvær grímur í morgun. Sverrir hefur erft þann leiðilega ávana frá pabba sínum að geta ekki einbeitt sér. Algjört fiðrildi. Hann er allan daginn að klæða sig og gleymir oft að klára skyldurnar sínar og fer að leika sér- eða dettur inn í einhvern rosalegan hugarheim.

Ég var búin að segja honum 73x að fara að klæða sig og búa um rúmið í morgun. Í 74 skipti fór hann inn í herbergið sitt, en kom mjög fljótlega fram aftur. Hálfklæddur byrjaði hann að sýna mér hvernig maður á að bera sig að, þegar maður er með sverð og hvernig maður gerir þegar maður kastar spjóti.

Eftir að hafa fengið kennslu í þessum mikilvægu efnum, rak ég hann aftur inn í herbergi og sagði honum að klára verkin sín. Stuttu síðar var hann aftur kominn fram, búinn að hneppa skyrtunni og allt. Byrjaði að leika sér. Ég leit inn í herbergi til hans og sá að það var ekki búið að búa um.

Ég hækka rómið örlítið og sendi hann inn til að búa um rúmið. Á meðan hann gengur inn til sín, styn ég: Jésúss almáttugur.

Og þá heyrist í frumburðinum sem allt veit: Mamma, það er bannað að blóta!