englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

laugardagur, apríl 09, 2005

Bakarí og bakkelsi

Mér finnst voðalega notarlegt að fara út í bakarí um helgar. Stundum nenni ég að fara og stundum ekki. Ég nennti í morgun.
Gömul kunningjakona mín var á undan mér. Keypti eplapæ og súkkulaði köku og gerfirjóma. Þegar hún er komin með gerfirjómann í hendurnar, hallar hún sér að mér, lítur á mig, með annað augað dregið í pung og segir: Það er nú konunglegt brúðkaup!

Á meðan ég hljóp heim (til að missa ekki af athöfninni konunglegu) fór ég að hugsa um Díönu. Þegar ég fékk fréttirnar af dauða Díönu, var ég stödd út í bæ. Eðlilega brá mér óskaplega við þessar fréttir. Díana er ein af þessum manneskjum sem deyja ekki...amk ekki í bílslysi. Alveg ferlegt.

Mér var sagt að það væri verið að fjalla um þetta í sjónvarpinu. Uppfull angistar og sorg, hljóp ég af stað - til að missa ekki af þessu. Þegar ég var að stinga lyklinum í skrána heima hjá mér, mundi ég eftir því að ég átti ekki sjónvarp!