englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

laugardagur, apríl 09, 2005

Eru orðin til alls fyrst?

Ég talaði við félaga minn um daginn. Hann var að forvitnast um ástarmálin mín. Mér fannst frekar undarlegt að hann væri að gera það, þar sem hann er fyrrum einhverskonar elskhuga/félaga/hvaðsemþaðnúheitir.
Eftir nánari athugun kom í ljós að hann var að lesa bloggið mitt og hafði séð að ég væri í 2ja mánaða bindindi. Markmiðið með spurningunni var í raun að hanka mig á því að hafa klúðrað því. Ég verandi þessi klára stelpa sá við honum og hélt mínu striki.
Í þessu samtali okkar viðurkenndi hann að vera að lesa bloggið mitt í fyrsta skipti í langan tíma, í raun hafði hann hætt að lesa bloggið mitt þegar við hættum að "tala saman". Hann sagði að bloggið mitt væri svo perónulegt að honum hafi fundist hann hafi verið að hnýsast í mín einkamál með því að lesa það.

Mér fannst það undarleg afsökun á áhugaleysi í minn garð. En mér er sama. Ef hann langar ekki, langar hann ekki og er það allt í lagi.

En varðandi persónulegheitin. Auðvitað er bloggið mitt persónulegt. Ég persónulega nenni ekki að lesa blogg sem er ekki persónulegt. Það þarf ekki að vera satt. það þarf bara að vera persónulegt.

Mér hefur alltaf þótt texti skemmtilegt fyrirbæri. Endalausar deilur um hver eigi textann sem skrifaður er og hver hafi rétt til að túlka hann og á hvaða hátt. Auðvitað meina ég eitthvað þegar ég skrifa orðin mín. En ekki endilega það sem þú lest úr þeim. Þegar þú lest um blæðandi álfahjörtu, ímyndar þú þér að ég liggi í hjartasári í lautinni minni og blóðið leki innan um beinin mín. Kannski er það rétt og kannski ekki.
Svo ferðu að hugsa um þitt blæðandi hjartasár eða þau hjörtu sem þú blæddir.
Þegar ég skrifa um einhvern sem elskar einhvern, þá heldur þú að ég sé að tala um mig. Kannski er það rétt, en kannski ekki. Svo ferð þú að hugsa um ástina þína, eða þessa ást sem þú finnur aldrei, sama hvað og hvar þú leitar.

Kannski langar mig bara til að fá þig til að hugsa, ekkert endilega um mig, bara hugsa.