Perlur og svín
Í dag er ekkert heimili almennilegt heimili nema að sé til nóg af perlum, til að perla og hin ýmsustu perlform.
það er ekkert mjög langt síðan ég lét undan þessum þrýstingi, enda þrjósk með eindæmum. Við eigum þó dágott safn af perlum í öllum regnbogans litum og nokkur dýraform.
Stefnan er þó greinilega sett hærra ef mark er takandi á orðum sambýlismanns míns.
- mamma, þegar ég er búinn að eignast tvö svona stór kassalaga form og mikið af bláum perlum og mikið af gulum perlum, þá get ég sko perlað eitt. Á ég að sýna þér?
Svo fór hann inní herbergi og náði í "perlbókina" og sýndi mér flennistóra mynd af lógói fyrirtækisins, sem framleiðir perlið. Ég segi honum að hann geti líka alveg perlað nafnið sitt. En honum fannst það (til að byrja með) ekki alveg eins spennandi og að gera þetta lógó.
- Já, en þetta er FYRIRTÆKIÐ sem framleiðir perlið mamma!!!
- Já, en heldur þú að það væri ekki flott að perla nafnið sitt og setja það á hurðina? Þá getur þú merkt herbergið þitt!
- Já, það er sniðugt... og svo ef það koma bófar og ætla að stela íbúðinni okkar, þá er nafnið mitt á hurðinni og þá vitum við að við eigum íbúðina!!!
- ehe... já einmitt!
- Þá er betra að ég geri Sverrir Páll Einarsson, af því að það heitir það enginn nema ég.
Já, allur er varinn góður - ég segi nú ekki annað.
<< Home