englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

mánudagur, apríl 25, 2005

af mönnum

Ég horfði örlítið á sunnudagsbíómynd ruv í gær. Frönsk um konu að nafni Carmen. Ég nennti nú ekki að horfa á hana til enda, en sá þó nóg til að sjá að Carmen var skapmikil og heitfeng kona.

Hvað er málið með frönsku konurnar í bíómyndunum?

Þær eru meira og minna geðveikar. Skapofsamanneskjur, sem víla það ekki fyrir sér að skera útlimi af ástmönnum sínum - svona til að undirstrika ást sína á þeim. Þegar þær eru ekki að kasta hlutum í veggi, eða skera útlimi, sitja þær þóttafullar með stút á vörum - hvort sem það er heima við eða á kaffihúsum.

Nú gæti maður haldið að það væri einmitt svona sem franskar konur eru. Það má svosem vel vera að það fyrirfinnist frönsk stúlka sem hagi sér eins og fordekraður, misþroska krakki...ég hef svo sem ekki hitt allar franskar konur í heiminum. En ég hef hitt nokkrar.

Þegar ég bjó í Frakklandi voru frönsku stelpurnar ósköp ljúfar og góðar (að sjá) reyndar með voða sætan stút á munninum en alveg ægilega stilltar. Ég sá aldrei blómavasa fjúka og flestir karlmenn voru með alla sína útlimi. Ekki drukku þær mikið á almannafæri - voru frekar í gosinu.

Ég man einu sinni eftir að hafa hitt franska stelpu sem var vel í glasi. (það var einmitt í annað af þessum tveimur skiptum sem ég kíkti á næturlífið á meðan ég dvaldi í landi rómantíkur). Hún og kærastinn hennar voru alveg ótrúlega hress og skemmtileg. Full? tjahh..við myndum sjálfsagt setja þau bæði í flokkinn: "aðeins rúmlega í glasi". Á meðan að á spjalli okkar stóð, var mikið hlegið. Þegar parið var að fara, baðst kærastinn hins vegar afsökunar á unnustu sinni..hún væri svo drukkinn.

Ég hef ekki enn séð það gerast á Íslandi. Það er meira svona: færðu þig hálvitinn þinn, kærastan mín þarf að æla!