englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

laugardagur, apríl 23, 2005

Vandræðagangur á föstudegi

Við mæðginin vorum á gangi á leið heim úr skólanum:

Sverrir: mamma, ég tel að hún Sóley sé skotin í mér.
Jóda: Já, er það. Af hverju heldur þú það?
S: ég bara tel það.
J: ok. hvernig er hún?
S: hún er brúnust í bekknum. (hún er svört)
J: nei, ég var ekki að meina það..hvernig er hún við þig?
S: bara fín.

Svo keyrðum við í Bónus. Við vorum eitthvað að ræða um börn sem eru í maganum á mömmum sínum og frumur sem breytast í börn og af hverju fólk segir ekki frá því að það eigi von á barni fyrr en eftir einhvern tíma. Ég var nokkuð ánægð hvernig mér tókst að tala um þetta án þess að "drepa barnið". Eftir stutta þögn heyrist úr aftursætinu:

S: ég hef aldrei séð fólk ríða!
J: ha? nei, það er nú bara eðlilegt. Fólk gerir þetta venjulega svona eitt og sér. Helst ekki á almannafæri. (ákvað alveg að sleppa að fara út í einhver smáatriði þarna)
S: Hvar ríður fólk?
J: (úff..förum við ekki bráðum að verða komin..ætli sé eitthvað gott í útvarpinu?) Fólk..jahh..ég veit það ekki.. (yeah rigth) kannski bara í rúminu sínu.. fólk stundar kynlíf í rúminu sínu. (fannst þetta ríðu orð ekki alveg vera málið)
S: maður getur samt séð það, ef maður er með kíki.
J: já, en það er bannað. Maður á ekki að horfa á annað fólk stunda kynlíf, það er dónaskapur.
S: Hvar ríður þú?

Þegar hér var komið við sögu var mér farið að líða vægast sagt illa og fannst allt í einu eins og ég væri hin mesta tepra.

J: jahh... bara..hmm..ég veit það ekki..
S: hvar riðuð þið pabbi?
J: (sá allt í einu fyrir mér aðstæður sem ég taldi að ekki væri hollt fyrir barnið að fá lýsingar á) bara...hmm..

Leit í baksýnisspegilin svona til að sjá glottið á barninu, sem virðist vera með sama svarta húmorinn og móðirin..en hann sat grafalvarlegur og var bara að afla sér upplýsinga

S: mannstu það ekki?
J: ha..jújú... nei sérðu við erum komin..reyndu að finna stæði!