englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

fimmtudagur, maí 05, 2005

Gamla konan

Ég hef stundum sagt söguna af því þegar ég ætlaði að loka augunum fyrir nýjasta æði Íslendinga: tölvum. Mér tókst það í dágóðan tíma. Ég átti fína ritvél og elska bókasöfn. Svo byrja ég í Háskólanum og var fljótlega neydd til að nota þennan óskunda. Gekk ekki betur en að ég var þekkt af skólafélögum mínum og kennurum sem "þessi sem ekki kann á tölvur" Og þá var ég í sagnfræði, þar sem enginn kann á tölvur - svo að hægt er að gera sér í hugalund hvað þekking mín var takmörkuð á þessu sviði.

Internetið...úff.. það var alveg sama hverju ég leitaði að..alltaf fékk ég klám.
Ritvinnslan - lærði í hitteðfyrra að gera copy - paste og í fyrra að gera cut - paste. Ég hélt að skólabróðir minn væri að tapa sér, þegar ég horfði á hann eyða út helmningnum af verkefninu okkar..og svo bara hókus pókus og það birtist aftur..á allt öðrum stað!

Í dag finnst mér ég vera orðin frekar tölvuvædd. Kveiki á tölvunni á hverjum degi og finn fullt af dóti á netinu..rekst aldrei á klám (segi ég, af því að þetta er opið bréf)og spila backgammon.

Þessa dagana er ég að skrifa meistararitgerðina mína. Flakka um allan heiminn fyrir framan litla skjáinn minn og finn heimildir og myndir og ég veit ekki hvað og hvað. Mér hefur samt ekki gengið neitt sérstaklega vel að semja texta fyrir framan skjáinn. Eftir að hafa vandræðast með þetta í þó nokkurn tíma, er ég búin að finna lausn sem hentar mér: Ég handskrifa fyrst og vélrita svo. Alveg eins og Gísli stjúpguðfaðir minn...og hann er kallaður Gísli Súrsson af nemendum sínum. Mér finnst Gísli kúl og ég líka, því ég er eins og Gísli.

Mér finnst massaflott að handskrifa mastersritgerðina sína!