Stríð
Ég er búin að eiga í heilögu stríði undanfarnar vikur. Andstæðingur minn er ekki af verri endanum: hárblásarinn minn. Við erum ekki alveg að ná saman. Virðumst ekki hafa sama skilning á tilgangi blásarans.
Mér finnst að hann eigi að blása á mér hárið á fullum krafti, svo ég verði eins og Lucy í Dallas (Með sítt, liðað, ljóst hár og stór brjóst og glossibornar varir) En honum finnst hann eigi að fá að vera í friði, til að geta dundað sér við að snúa upp á snúruna sína. Hann segir að það komi mér ekki við hvað hann geri í frítíma sínum. Ég bendi honum á að það komi mér við, ef það bitni á vinnu hans.
Rétt eins og það er ekki í mínum verkahring að taka til í herbergi sambýlismanns míns, þá er það ekki mitt verk að leysa flækjuna sem blásarinn kemur sér í.
Þetta byrjaði í almennri þrjósku, en er nú orðið heilagt stríð. (Hjá okkur báðum)
Ástandið á heimilinu hefur versnað með hverjum deginum. Í tvær vikur hef ég þurft að standa þétt upp við vegginn, á meðan á blástri stendur, og þar af leiðandi ekki náð að sjá mig í speglinum - með afar misjöfnum árangri. Ég hef reynt hræðsluáróður og sagt við blásarann að ef hann hagi sér ekki, þá komi ég til með að kaupa nýjann og henda honum í ruslið. Hann svara með skætingi og segist vera félagi í Hárblásarafélagi Íslands, sem eigi aðild að Hárblásarafélagi Evrópu, og það sé borin von fyrir mig að fá annan blásara inn á þetta heimili.
Til að reyna að kaupa mér tíma, fór ég í klippingu. Snoðklippingin ætti að duga vel fram á sumarið. Ég gefst ekki upp þó á móti blási! Þetta stríð ætla ég að vinna!
<< Home