englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

föstudagur, maí 13, 2005

Af pípurum

Það var húsfundur frammi á gangi um daginn, þar sem var ákveðið að taka ofninn niður af kassanum og færa hann á gólfið.
Þekkti einhver pípara?
Jú, ég get reddað pípara. Ekkert mál. Fannst nokkuð til mín koma, þar sem ég var nú orðin húsvörður í húsinu og hafði iðnaðarmannasambönd.
Eftir að ég sagði Kristjáni pípara að það við værum í rosalegum vandræðum og ég væri sú eina sem þekkti pípara og hann væri einmitt sá maður, var hann fljótur að samþykkja það að koma og hjálpa stelpunni.

Við sátum í eldhúsinu og biðum eftir Sigmari. Sigmar ætlaði að hjálpa syni sínum að halda á ofninum. Ég veifaði húsvarðalyklakippunni framan í Krisján, án árangurs. Hann sagðist ekki efast um að ég væri voða sterk, en ég skildi bara geyma kraftana til annars konar átaka.

Á meðan við biðum töluðum við um daginn og veginn. Ég sagði honum að ég væri enn á vetrardekkjum og sagði honum að ég reyndi alltaf að sleppa við að fara með bílinn minn í smurningu og skoðun. Sagði honum að ég fengi svolítið kikk út úr því að sjá hvað ég kæmist upp með.

Hann horfir rannsakandi á mig og segir eftir stutta stund: þú ert svolítið fyrir að fara leiðir sem venjulega eru ekki farnar, er það ekki?
Ég finn að ég hitna í vöngunum. Geri ráð fyrir að hann sé að vísa til samtals sem við áttum þar sem rætt var hvort við ættum ekki stefnumót..en svo byrjaði ég í strákabindindi og þá var það útrætt.

Ég gef mér nokkurra sekúntna umhugsunarfrest, ákveð að ræða þetta deit-dæmi ekki, brosi breitt til hans, segi svo að mér finnist gaman að ögra lífinu og fari yfirleitt erfiðu leiðina að hlutunum.

Spennuþrungin þögn var rofin af dyrabjöllunni. Sigmar var mættur.