englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

miðvikudagur, maí 11, 2005

Símtal

Kona á síma: (svarar þungri, áhugalausri röddu) Stéttarfélag háskólanema, góðan daginn - get ég aðstoðað?

- Nokkuð greinilegt að konan á símanum hefur fengið uppskrift af því hvernig best sé að svara í símann, en er ekki endilega sammála þeirri aðferð. Notast við hana til að halda vinnunni.

Námsmær: Já góðan daginn, ég þarf að fá upplýsingar varðandi veikindadaga námsmanna.
Kona á síma: (með sömu áhugalausu röddu) Ef þú ert veik þegar próf er, verður þú að hafa samband við lækni viðkomandi skóla sem kemur til með að skoða þig og skera úr um alvarleika veikinda þinna. Hann hefur síðasta orð um hvort þú færð að taka prófið seinna eða druslast í það núna.
Námsmær: já..nei nei..það er ekki þetta sem mig langaði að vita..ég hérna..
Kona á síma: hvað viltu vita?
Námsmær: Ég er að vinna að lokarannsókninni minni og er sæki ekki nein námskeið núna.
Kona á síma: Og hvað er málið..getur þú ekki bara unnið heima?
Námsmær: jú jú, ég get það sjálfsagt, en mér líður bara ekki sem best og kem ekki miklu í verk.
Kona á síma: það er ekki mitt vandamál.
Námsmær: Ha? nei nei..ég veit það
Kona á síma: er einhver tilgangur með þessu símtali? Ég er vinnandi kona, ólíkt sumum greinilega!
Námsmær: já, ég er að forvitnast um veikindadaga námsmanna sem eru að vinna að lokaverkefnum sínum. Hvernig gengur það fyrir sig?
Kona á síma: Nú, samkvæmt kjarasamningum Stúdentaráðs við Samfélagið, er gert ráð fyrir tveimur veikindadögum á önn, eða um það bil hálfum á mánuði. Hvað er kennitalan þín?

Námsmeyjan stynur upp kennitölunni sinni og konan í símanum slær tölunum á lyklaborðið og andar þungt í símann á meðan. Nokkrar mínútur líða. Námsmeyjan hugsar til þess þegar hún veiktist í byrjun annar og var rúmliggjandi í nokkra daga.

Kona á síma: Jaaá Gunnhildur...ertu með hita? (Nokkuð greinilegt að hún er með feril stúlkunnar fyrir framan sig á skjánum og þykir ekki mikið til hans koma)
Námsmær: ja..ég veit það ekki, ég held það. Mér líður þannig.
Kona á síma: hvað meinar þú? líður þannig? annað hvort ertu með hita eða ekki! Ertu ekki búin að mæla þig?
Námsmær: Ha..nei..
Kona á síma: gerðu það..
Námsmær: Núna..ok..á ég svo að hringja í þig aftur eða?
Kona á síma: nei, ég bíð.

Nokkrar mínútur líða og skemmtileg lyftutónlist ómar úr símtólinu á meðan skólastúlkan mælir sig.

Námsmær: Heyrðu, ég er ekki með neinn hita.
Kona á síma: Nei, mig grunaði það. Þá get ég ekkert gert fyrir þig. Held að það sé best fyrir þig að rífa þig upp úr þessum aumingjaskap og fara að koma þér að verki.
Námsmær: Ha..jaá..en..
Kona á síma: Heyrðu vinan! Ég er þegar búin að eyða of mörgum mínútum í þig. Það eru bara áætlaðar 2 mínútur í hvert símtal. Veistu hvað ég hef þurft að sleppa mörgum símtölum vegna þín? Og þú ert ekki einu sinni veik!!! Vertu þakklát fyrir að ég fer ekki lengra með þetta. Vertu sæl.

Já þeir eru góðir þessir kjarasamningar!
....