Styrkur til þín
Ég hitt fyrrverandi samstarfskonu mína um daginn. Við erum á svipuðum aldri og framan af var hún líka einstæð móðir. Barnsfaðir hennar var einhvernvegin aldrei mikið inn í myndinni, ekki nema að mjög takmörkuðu leiti.
Má eignlega segja að þó við séum ekki mjög líkar í eðli okkar þá hafi lífshlaup okkar verið um margt líkt. Það er þó eitt sem aðskilur okkur framar öllu og það er að ég hef aldrei fengið krabbamein.
Hún hefur fengið krabbamein þrisvar.
Ég átti gott samtal við hana í gær og vorum við að fara yfir stöðuna. Hún vissi ekki alveg hvað barnið hennar vissi mikið, en hafði þó sagt við mömmu sína að hún mætti ekki deyja. Kærastinn hennar stendur eins og stytta við hlið hennar og gerir hvað hann getur. Þetta er bara ekki svo auðvelt.
Krabbamein er algengur sjúkdómur. Hún segir mér að þrír greinist á dag. En til að vera viss um að hún sé ekki að ýkja, segir hún mér að hún haldi að það sé reyndar bara verið að tala um virku dagana.
Læknirinn hennar er ekki búinn að ákveða hvaða lyf hún kemur til með að fara á núna, þar sem líkaminn hennar er hættur að sýna viðbrögð við gömlu lyfjunum. Það er um tvenn lyf að velja. Það er bara málið með aukaverkanirnar. Annað lyfið veldur heyrnaleysi en hitt skemmir nýrun.
Ég sendi henni og hinum tveimur sem greindust í gær og þeim þremur sem greinast í dag og þeim sem koma til með að greinast á morgun og á mánudaginn... styrk og hlýja strauma og vona að ef guð er til að hann fari að vinna vinnuna sína.
<< Home