englagrautur

þar sem ýkjur auka skilning

sunnudagur, júlí 31, 2005

Glöð

Ég nennti ekki að fara út úr bænum. Eins og einhverntímann hefur áður komið fram þá læt ég illa að stjórn. Vil ekki fara í útilegu þegar ég á að gera það. Langar bara að fara þegar mér hentar og á mínum forsendum. Svo þess fyrir utan þá finnst mér ég varla vera komin heim frá útlöndum og ekki nokkur ástæða til að rjúka langt frá heimili mínu og hafurtaski. Mér þykir þó nokkuð ljóst að það voru einn eða tveir sem fóru í ferðalag, ef marka má Sódómu á föstudaginn var. En djömmurum Reykjavíur til mikils sóma þá sáu þeir um að fylla bari bæjarins með útlendingum í þeirra stað. Ekki alveg það sama en kemur svosem út á eitt ef ekki stendur til að ræða mikið við ókunnuga.

Fann strákinn pissandi. Þegar Essó bensínstöðin í Kópavogi/Reykjavík var tekin í gegn hafði ég töluverðar áhyggjur af því hvað yrði um feita barnið. Eitthvað tuðaði ég inní mér þegar ég sá að bensínstöðin var tilbúin og Burger King komin í stað hlandpiltsins. Átti svo leið á þessa stöð í gærkvöldi og fann þá piltinn bak við hús. Eiginlega á betri stað en áður og enn í fullu stuði. Þá varð Jóda mikið kát.

Fékk svo símtal í gær. í þessu símtali var mér boðið í svona spagufudekur í Laugum á eftir. Ég er að fara á límingunum ég hlakka svo til.

Já, lífið er bara ótrúlega skemmtilegt.

föstudagur, júlí 29, 2005

Jæja, loksins

Jæja þá er ég komin með skjá og get hafið frásögn af ferðum mínum og sonar míns um heimsins höf og lönd. En veit ekki alveg hvar ég á að byrja, fæ svipaða tilfinningu og þegar ég lít yfir íbúðina mína og mér fallast hendur... svo mikið að gera að ég veit ekki hvar ég á að byrja. Ætli ég geri ekki eins og þegar ég byrja að taka til...á fötunum.

Við keyptum föt.

En fyrst fórum við í Legoland. Má eiginlega segja að ástæðan fyrir því að ég þarf ekki að fara í útilegu þessa helgi er sú að ég fór í útlilegu í Legolandi. Legoland er frábær skemmtigarður. Fyrir þá sem ekki hafa farið þangað, þá er einn dagur eiginlega ekki nóg. Taka tvo daga í þetta.
Ferðin varð reyndar hálf endasleppt hjá okkur Sverri, þar sem honum tókst að togna í hálsinum í stærsta rússíbananum. Við þurftum að fara með sjúkraleigubíl í næsta bæ og hitta lækni. Læknirinn gaf grænt ljós á að farið væri í Tivolí helgina á eftir.

Sú ástæða sem sonurinn gaf fyrir tognuninni var sú að þegar við fórum niður fyrstu brekkuna, þá öskraði hann og opnaði þ.a.l. munninn upp á gátt og þá kom voðalega mikill vindur upp í munninn á honum og hann tognaði í hálsinum.

Ég viðurkenni fúslega að ég átti mjög erfitt með að halda tárunum inní augunum og hnúturinn í maganum var voða voða stór. En einhverra hluta vegna treysti ég þessum sænska lækni (sem talaði við mig á einhverskonar skandinavísku og ensku við sverri) og eftir að heim í tjald var komið og tveir bjórar komnir í magann, leystist hnúturinn og tárin fóru aftur inn í pokana.

Rennandi blaut og frekar köld sofnuðum við svo öll svefni þeirra sem eiga hann skilið og sváfum alveg þangað til við vöknuðum.

fimmtudagur, júlí 28, 2005

vandamál lífs míns

Veit ég vel að margir myndu flokka þetta undir lúxusvandamál en mér finnst voðalega erfitt að eiga bilaða tölvu...

mánudagur, júlí 25, 2005

krapp

æ hvað mér finnst skemmtilegt að eiga svona tölvu og eiga í viðskiptum við svona netfyritæki. Er sumsé komin heim og með fullt af krassandi sögum úr ferðalaginu..en ´til að byja með liggur netið niðri og svo fer skjárinn. Núna er ég að skrifa nokkurnveginn blindani og vona að þetta komist nokkuð skammarlaust til skila. Vona líka að tölvan mín komist í lag í nótt. Annars verður henni hent á haugana og hver vill lenda í því???

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Gaman

Jahérnameginn...
ef ég á ekki bara eftir að þurfa frí þegar ég kem heim - til að jafna mig eftir fríið.
Dýragarður í dag og Legoland í fyrramálið

Ég held ég verði bara að segja að þetta frí er bara frábært...

Strætó

Í gær fór Ásvallagötufjölskyldan í strætó í bæinn. Án nokkurra skamma náðum við að kaupa klippikort og fundum vagn. Einhverra hluta vegna soguðumst við inn á Strikið, þar sem gullmenn og blísturssalar spókuðu sig um í sólinni. Mikið var á þessari beinu braut sem gladdi augað, fyrir okkur bæði. Risastórir legókassar og mannhæðaháir R2D2-ar og fallegir skór og fínir kjólar.
Reyndar vorum við ósköp stillt í verslunarháttum, fyrir utan einn poka af ristuðum möndlum og vatnsbrúsa (yeah right!!)

Hér allt til alls, meira að segja danskt McDonalds og íslendingar í massavís.

Ég gæti haldið langa tölu um matvöruverð, en nenni ekki að standa í því. Get þó sagt eitt, að ég tel að þrátt fyrir að bónusfeðgar hafi gert gott mót, þá má einhver annar taka upp þráðinn þar sem þeir skildu við hann - virðast vera næg verkefni þar.

Á heimleið sáum við ekta indjána syngja, spila á panflautur og dansa, á meðan Pokahontast gekk um og hvíslaði fögrum róm: sídís.

Ég er líkegast ekki mesti túristinn hér, þar sem ég var spurð til vegar og gat hjálpað.

Í dag er það svo dýragarðurinn...

mánudagur, júlí 18, 2005

Svíþjóð

Í Svíþjóð er töluð sænska, en á skáni er töluð skánska. Á flugvellinum í Kaupmannahöfn byrjaði ég strax að reyna að babbla á dönsku - alveg gjörsamlega eins og innfædd..ur íslendingur. En á skáni var ég í útlöndum. Það eina sem ég reyndi að segja á skandinavísku var : skal jaag betalle for poserne? og búðarstelpan skildi mig og sagði já. Og þá sagði ég: jaag skal har tvo tak!

Í Svíþjóð rákum við töluverða útgerð, þar sem rækjur og kræklingar voru veiddir grimmt. Aflinn var svo settur á klemmu og krabbar látnir bíta á agnið. Að því loknu voru krabbarnir teknir heim í litla húsið. Þar sem var viðbúið að þeir lifðu ekki lengi svo fjarri heimaslóðum var þeim gefin skemmri skírn og að dauða loknum, veitt formleg - afar hátíðleg útför.

Eitthvað var rætt um að sigla út á haf á eðlunni, til að veiða úthafsrækjur. En ekkert varð af því.

Heiðrún og fjölskylda voru búin að vera í stanslausri sól og því kom ég bara með bikiní og stuttermaboli frá Íslandi en stuttu eftir að Ásvallagötufjölskyldan kom á svæðið, byrjaði að rigna. En það kom nú ekki að sök, þar sem við erum nokkuð vatnsheld öll sömul.

Það var bara eitt sinn sem við héldum að jörðin væri að rifna, svo miklar voru þrumurnar og grunar mig að Þór (Óðinsson) hafi verið í garðinum okkar að fremja einhvern gjörning. Hins vegar hafði ég það of gott við hlið hrjótandi sambýlismanns míns, að ég nennti ekki að kíkja á kallinn.

Næsti bær var undirlagður af árlegu rósafestivali. Heiðrún er án efa ókrýnd rósaprinsessa - og mun verða það um aldur og æfi.

sunnudagur, júlí 17, 2005

Iceland Express

Það er svo langt síðan ég hef flogið til útlanda að Iceland Express var ekki til þegar ég flaug síðast. Ég var búin að standa lengi í langri langri röð á fulgvellinum, þegar einhverskonar innritunarvísa (sbr. sætavísa) sagði að ég væri í röð fyrir Icelandair og ég þyrfti að fara í aðra röð...langt langt í burtu. Eitthvað hefur umkomuleysi mitt skinið úr augunum, því innritunarvísan bauðst til að ganga með mér og kom mér fram fyrir röðina (ekki í fyrsta skipti sem mér tekst að koma mér fram fyrir röð...en það er nú önnur saga)

Ég náði að kaupa mér stórkostlega myndavél, með leiðavísum fyrir öll möguleg þjóðarbrot, nema kannski helst kínversku. Er auðvitað ekki búin að læra alveg á hana, en það stendur allt til bóta.

Mér sýnist að Iceland Express hafi bætt við nokkrum sætaröðum til að auka hagnað sinn. Amk fannst mér óskaplega þröngt á milli sætanna. Það sem undir stólinn fór, kom ekki til baka. Ég var alvarlega að hugsa um að rukka manninn sem sat við hliðina á mér um helminginn af fargjaldi mínu. Hann var (og væntanlega er enn) stór og mikill á velli og þar sem ég er ekkert sérstaklega umfangsmikil, notaði hann tækifærið og stal helmingnum af sætinu mínu.

Í stað þess að heimta peninga af honum ákvað ég að hefna mín og fór óteljandi sinnum á klósettið. Var síður en svo hress með það þegar frekknótta flugfreyjan reyndi að gifta mig honum og róaðist ég ekki fyrr en hún baðst innilegrar afsökunnar.

Stutt stopp á flugvellinum í Kaupmannahöfn og lest til Svíþjóðar...

framhald næst

fimmtudagur, júlí 14, 2005

tímaskortur

langaði svo til að segja ykkur frá stráknum á bensínstöðinni sem kunni næstum því að mæla sjálfskiptingarvökvann en vissi ekki hvar átti að setja hann á bílinn. Langaði líka til að segja ykkur frá stelpunum sem unnu á bensínstöð tvö sem sögðust bara vera vera tvær og það átti að duga mér sem svar við því hvort þær kynnu að mæla sjálfskiptingarvökvann.
Langaði þó mest til að segja ykkur frá stráknum á bensínstöð þrjú, sem mældi vökvann og kunni líka að setja hann á. Hann á sjálfur fallegan volvo eins og ég. Hann strauk af strikamerkinu á vélinni og sagði að við værum með eins vélar. Mín væri bara með ekki með innspítingu og því þyrfti ég ekki að passa mig á að stiga ekki á bensíngjöfina þegar ég kveiki á bílnum...

... en...

ég er að falla á tíma. ég er sko að fara í til útlanda í nokkra daga (fyrir þjófa, þá verða bæði kjartan og mamma að passa íbúðina - svo er það dýrmætasta ekki heima...tek nebblega sambýlismanninn með mér)

Veit ekki með tölvusamband, en lofa að punkta amk hjá mér í bók og færa inn þegar heim kemur.

Njótið þess að vera til - elskið hvort annað og ykkur sjálf.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Velti fyrir mér

Hvernig getur maður hræðst og þráð eitthvað á sama tíma?
Hvað er það sem maður hræðist ef það er samt þess virði að þrá það heitt?
Hvað er þess virði að þrá ef maður hræðist það?

sunnudagur, júlí 10, 2005

Tveggja manna tal

Stúlka:Langar þig til að sofa hjá mér?
Piltur : uuu...Já
Stúlka: ég vissi það!!!

Piltur: Mig langar til að sofa hjá þér
Mig langar til að drekka kaffi með þér
Mig langar til að sofna hjá þér
Mig langar til að vakna með þér
Mig langar til að tala við þig
Mig langar til að horfa á video með þér
Mig langar til að fara í göngutúr með þér
Mig langar til að sitja hjá þér
Mig langar til að lesa með þér
Mig langar til að vera með þér

laugardagur, júlí 09, 2005

Klúður

Það gleymdist að láta mig vita að það væri peysudagur í sundi.
Ég mætti bara í venjulegum sundfötum og algjörlega óloðin á bakinu.
Ég þoli ekki þegar þetta gerist!

föstudagur, júlí 08, 2005

Samtal fólks

Ég hitti ungan dreng á leikskóla og var hann búinn að grafa risastóra holu ofan í moldina.

Jóda: Ertu að grafa holu? (Alltaf jafn gáfuleg í orðun spurninga)
Drengur: Nei, ég er að drullumalla

ég lít ofan í fötuna hans og sé að hann er kominn með hið myndarlegasta deig

Jóda: já og ætlar þú að búa til köku úr þessu?
Drengur: Nei, ég ætla að byggja fjall
J: já, það er góð hugmynd og ætlar þú svo að skreyta það?
D: Nei, ég ætla að setja sand yfir það
J: Já og svo skreyta það? (vogin alveg að missa sig)
D: Nei, ég ætla að gera hurð
J: já, það er sniðug hugmynd. Það er gott að hafa hurð á fjallinu, svo auðvelt sé að komast inn í það!
D: já, það er nefninlega svo mikil rigning.

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Hlaup og tattú

Hljóp í fyrsta skipti á brautinni á Laugardalsvellinum í kvöld. Það fannst mér alls ekki leiðinlegt. Var reyndar að tala við krakka (fullorðna krakka) sem sögðu að það væru bara lúðar sem æfðu frjálsar. Þau sögðu að aðeins þeir sem ekkert geta í boltaíþróttum æfðu frjálsar.
Í smá stund velti ég því fyrir mér hvort ég ætti kannski bara að fara að æfa fótbolta, en bara í smá stund. Mér finnst töff að æfa frjálsar. Þó svo að ég sé náttúrulega ekki að æfa frjálsar - ég bara fer hlaupandi á milli staða.

Fór svo í sund á eftir. Gott að láta líða úr sér í pottinum...

Ég var farin að halda að maðurinn með skjaldamerkið á bringunni væri fluttur úr landi, en mér til mikillar gleði sá ég hann loksins. Hugsa að hann hafi verið að koma úr fríi frá Þýskalandi. Kannski hann hafi heimsótt ömmu sína og fengið aðeins of mikið af heimabökuðum þýskum brauðsnúðum...

en hann verður bara bara að skokka það af sér á brautinni...

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Hjálp óskast

Er einhver sem getur sagt mér hvar ég gæti hafa séð "Jack" í Lost þáttunum áður?

Hér er ár - um ár - frá ári - til árs

Merkilegt hvernig lífið tekur nýjar stefnur, stundum að því er virðist alveg upp á eigin spýtur.

Fyrir ári síðan átti ég enga fjarstýringu, ekkert video, engan geislaspilara og reyndar ekkert sjónvarp.

Í dag á ég sjónvarp, video (reyndar næstum óstarfhæft - sorrý Dísa) dvd spilara, sem spilar bæði bíó og tónlist, sjónvarp og 4 fjarstýringar.

Svo á ég líka grænmetissafapressu, vöffujárn (með sverri) og geðveikt pottasett og allt þetta átti ég ekki fyrir ári síðan.

Það er bara eitt sem mig vantar...

...velti því fyrir mér hvar ég fæ nýja hæla á stígvélin mín?

þriðjudagur, júlí 05, 2005

Tilkynning

Tilkynning frá vegabréfaeftirliti Ríkisins

Færsla eiganda þessarar síðu um útrunnið vegabréf og prentvillur hefur verið lögð fyrir stjórn vegabréfaeftirlitsins og var einróma dæmd ómerk og dauð. Því var tekin ákvörðun um að fjarlægja þá færslu af veraldarvefnum og hefur hún verið send út í buskann.

Elínu - sem að upplagi er nokkuð velgerð - hefur verið sent nýtt vegabréf, sem mun að öllu óbreyttu koma í hennar (rottulausa) hús á morgun. Henni er frjálst að tjá sig að vild um það vegabréf og hversu vel það er gert.

Með vinsemd og virðingu
Stjórnarformaður vegabréfaeftirlitsins

Símhringing frá Símanum

Síminn hringdi og í fátinu yfir því að ókunnungt númer væri að hringja í mig, skellti ég óvart á. Viðkomandi var þó alls ekki á þeim buxunum að gefast upp á mér og hringdi strax aftur.

- Hæ, þetta er Halli hjá Símanum.
- uuu...já hæ...

Þrátt fyrir að ég hefði aldrei talað við Halla áður, var ég nokkuð viss um erindið og því afskaplega kát með að heyra í honum...Halla.

Halli vildi fá að komast heim til mín, til að setja upp nýtt adsl og leyfa mér að horfa á fullt af sjónvarpsstöðvum - ókeypis í mánuð (af því að maður er nú alltaf inni hjá sér á sumrin að horfa á sjónvarpið).

Eftir að hafa skotist vestur í bæ á fjólubláu undra dollunni, opnað fyrir Halla og kvatt hann, velti ég því fyrir mér hvort væri eðlilegt að skilja manninn eftir eftirlitslausann þarna ... jæja, hann þá í versta falli myndi vaska upp.

Ég heyrði í honum eftir tæpan klukkutíma.

Komin með tvær nýjar græjur og splúnkunýja snúru sem nær alla leið og til baka.

Discovery channel og cartoon network o.fl. Rúsínan í pylsuendanum er án efa DR 1 - Ég meina danska ríkissjónvarpið, þvílíkur lúxus. Ég er ótrúlega hamingjusöm, með 10 nýjar stöðvar...hugsið ykkur allar þessar nýju útlensku auglýsingar sem ég get horft á!!!!

(Halli vaskaði ekki upp - sagðist ekki hafa fundið hanska)

sunnudagur, júlí 03, 2005

Draumfarir

dreymdi þig í nótt
kysstumst og þá mundi ég þegar við kysstumst í fyrsta skiptið
hvað það var gott
ég hugsaði: já alveg rétt...óþarfi að hafa áhyggjur

svo vaknaði ég
mundi að varir mínar höfðu aðeins snert þínar í draumi

kannski einn daginn...

laugardagur, júlí 02, 2005

Enn um breytingar


Já hann hefur bara farið í tvær nefaðgerðir og þær voru eingöngu læknisfræðilegs eðlis - ekki til fegurðarauka.

Ég hef einu sinni verið trúlofuð á ævinni og það var þegar ég var 11 ára og sá heppni var Michael Jackson. Þá var hann svartur og sætur, núna er hann hvorugt.
Er nema furða að ég þori ekki að trúlofa mig aftur? Ég meina ef þetta eru áhrifin sem ég hef...

Rottur

Sverrir og félagar urðu mjög æstir um daginn. Þeir fundu rottu úti á götu. Hún var alveg sprelllifandi og æst mjög. Hún hljóp fram og til baka og þeir á eftir. Ég dreif mig út til að sjá gripinn og varð satt best að segja ekki um sel. Þvílík hlussu rottu lufsa. Ég hljóp með piltunum og rottunni í stutta stund en fékk fljótt leið á þessum leik og hélt inn. Þar sem ég stend í dyragættinni og geri mig líklega til að ganga inn, reka drengirnir upp mikið öskur. Rottan hafði farið niður ræsi. Risastóra hlussurottan tróð sér á milli þröngrar ristarinnar.

Skilst að þær fletji sig út til að komast þarna inn á milli.

Nokkrum dögum síðar sá ég tvær stelpur vera að brasa eitthvað við holræsishlemm í Laugardalnum. Þetta greip athygli mína. Mér hefur alltaf fundist eitthvað spennandi við holræsin og það sem þau hafa að geyma (í ævintýrunum ekki raunveruleikanum). Mér fannst ekki síður athyglisvert að þarna voru tvær ungar stelpur á ferð og enginn strákur sjáanlegur.

Ég gekk til þeirra. Þær voru að binda kerti í kaðal. Voða fínt kerti, bleikt og var eins og það væru kaffibaunir í því. Þær sögðu mér að þær væru að eitra fyrir rottum. Þetta bleika kerti væri eitur sem rotturnar ætu og dræpust í kjölfarið.

Ég sagði þeim frá rottunni á Ásvallagötunni. Hvað hún hefði verið stór og hvað hún hefði farið í gegnum mjóa rist. Við vorum sammála um að rottur væru ekki sætar, með allt of löng skott.

Þegar ég geng í burtu kallar önnur þeirra til mín:

- Við erum búnar að eitra á Ásvallagötunni. Þetta er allt í lagi, hún er örugglega dauð!!!

Breytingar

Sumar breytingar eru mjög góðar aðrar ekki eins góðar


föstudagur, júlí 01, 2005

Duran

Jú jú ég fór á tónleika í gær. Auðvitað var mikill fiðringur í mér en hann var ekki síður vegna stemningarinnar. Allt þetta fólk. Hvar hefur það eiginlega verið öll þessi ár? Eins og við var að búast rakst ég á gamlan kærasta, hann hafði vaxið upp úr hárinu og bætt á sig bumbu - æ eins og hann var nú sætur einu sinni. Well...

Ég hélt til að byrja með að félagsskapur minn á þessum tónleikum væri kannski ekki mjög glamúr, tvær óléttar konur. En þegar á staðin kom sá ég að það var hinn mesti misskilningur. Það var meira af óléttum konum en fólki í grímubúningi (þá er ég að tala um föt viðeigandi tímabils) Óskaplega ánægð með að vera með tvær glamúrskvísur í farteskinu, svona til að vega upp á móti glamúrleysi mínu skunduðum við inn í salinn - reyndar ekki fyrr en búið var að pissa óléttupissi.

Við vorum ekki á A svæði og sáum því ekki mikið, en það var allt í lagi. Ég lokaði bara augunum og dansaði og söng eins og ég ætti lífið að leysa. Svo hoppaði ég upp annað slagið og sagði þessum óléttu hvaða föt Simon var kominn í það skiptið.

Auðvitað var alveg svakalega gaman. Ég meina en ekki hvað? Þeir tóku öll lögin og allt eins og það átti að vera. Reyndar hefði mér þótt allt í lagi að hafa tjöld á veggjunum, fyrir þessa sem ekkert sáu - hefði bjargað mjög miklu. Kannski næst, því þeir lofuðu að koma fljótlega aftur.

Það verður þó seint sagt að söngvarinn geðþekki hann Simon LeBon sé í hágæðaflokki sem slíkur.